„Eurovision-samfélagið heldur niðri í sér andanum yfir þessu máli,“ segir Ísak Pálmason formaður FÁSES en mögulega verður tilkynnt um það í dag hvort það verði Liverpool eða Glasgow sem hýsi Eurovision á næsta ári. Eins og frægt er orðið hleypur Bretland í skarðið fyrir Úkraínu sem vann keppnina í ár og heldur keppnina 2022, á meðan Úkraínumenn verjast árásum Pútíns.

„Það eru reykfyllt bakherbergi hjá öllum Eurovision-klúbbum heims sem eru að reyna að spá þessu rétt,“ segir Ísak hlæjandi. Hann fellst á að þetta verði veisla, sama í hvorri borginni þetta verður haldið.

„Það er langt síðan það hefur verið jafn mikill áhugi á því hjá Íslendingum að fara út á sjálfa keppnina og í ár. Síðast var svona svipaður áhugi árið 2016 þegar keppnin var í Stokkhólmi. Þetta er venjulega þannig.

Sjálfur væri ég rosalega til í að fara til Skotlands og veðja á að Glasgow verði fyrir valinu, svona miðað við stjórnmálaástandið í landinu og líka miðað við menninguna í Bretlandi. Bretarnir eru duglegir að nýta svona tækifæri til að halda Skotunum á sínu bandi og það væri held ég sterkt að leyfa þeim að halda þetta.

Ísak væri sjálfur rosalega til að fara til Skotlands.

En þetta er auðvitað risavaxin spurning. Tekjurnar af þessu fyrir aðra hvora borgina verða gígantískar og ekki bara það heldur er athyglin líka svakalega dýrmæt, þetta er enda stærsti sjónvarpsviðburður í heimi sem er ekki tengdur íþróttum.

Þú getur rétt ímyndað þér hversu jákvæð áhrif það hefur í för með sér að fá Eurovision á svæðið. En Liverpool yrði líka mjög verðugur fulltrúi, enda mikil tónlistarborg og borg sem á sögu sem hefur tengst tónlist um margra ára skeið.“