Bandaríski leikarinn Chris Evans var hvergi sjáanlegur þegar breska leikkonan Lily James sást á dögunum kyssa breska leikarann Dominic West í hádegismat í miðri Rómarborg. West er sjálfur giftur maður.

Bandaríski slúðurmiðillinn PerezHilton er meðal þeirra slúðurmiðla sem greina frá málinu en fyrir lesendur sem ekki vita voru þau Lily og Chris að stinga saman nefjum í sumar. Þau virðast hætt því en Lily James og Dominic West voru í hádegismat ásamt umboðsmanninum þeirra beggja, Angharad Wood.

Í frétt miðilsins eru myndir sem papparassar náðu af dúóinu í sleik sagðar vekja upp fleiri spurningar heldur en þær svara. Sérstaklega í ljósi þess að Dominic West er giftur landslagsarkitektinum Catherine Fitzgerald. Saman eiga þau fjögur börn en fullyrða erlendir slúðurmiðlar nú að hjónabandið hangi á bláþræði.

Myndu sumir jafnvel ganga lengra og segja hjónabandið búið en Dominic og Lily sáust jafnframt deila rafmagnshlaupahjóli saman í borginni. Dominic er einmitt þekktastur fyrir hlutverk sitt í bresku þáttunum The Affair og virðist nafn þáttanna smellpassa við aðstæður leikarans í nútímanum.