Bandaríska leikkonan Evan Rachel Wood, sem er þekkt fyrir leik sinn í HBO þáttunum Westworld, hefur sakað tónlistarmanninn og fyrrverandi kærasta sinn Marilyn Manson um að hafa misnotað sig.

Hún hefur áður tjáð sig um kynferðislegt og andlegt ofbeldi sem hún hefur upplifað í sambandi en þetta er í fyrsta sinn sem hún nefnir geranda sinn á nafn.

„Maðurinn sem misnotaði mig heitir Brian Warner, betur þekktur sem Marilyn Manson,“ skrifar Evan Rachel Wood í færslu sem hún birti á Instagram og má sjá neðst í fréttinni.

Evan Rachel Wood segir Marilyn Manson hafa notað tælingarferli (e. grooming) til að heilaþvo hana.
Fréttablaðið/Getty images

Leikkonan kynntist Manson fyrst árið 2006, nokkrum árum eftir að hún kom fyrst fram á sjónarsviðið eftir leik hennar í kvikmyndinni Thirteen. Þá var hún nýhætt með leikaranum Jamie Bell. Segir hún Manson hafa notað tælingarferli (e. grooming) frá því að hún var á táningsaldri til að heilaþvo hana. Þau voru í sambandi frá árinu 2006 til 2010.

Nokkrar fyrrverandi kærustur Manson hafa lýst svipaðri reynslu af kynbundnu ofbeldi en ekki hafa allar nefnt hann á nafn.

„Ég var heilaþvegin og misnotuð til að gera mig undirgefna. Ég er komin með nóg af því að lifa í stöðugum ótta við hefnd, meiðyrði eða kúgun. Ég vil fletta ofan af þessum hættulega manni og varpa ljósi á iðnaðinn sem hefur gert honum kleift að komast upp með þetta áður en hann eyðileggur fleiri líf. Ég stend með þeim fjölmörgu þolendum sem geta ekki lengir þegið þunnu hljóði,“ skrifaði leikkonan.