Heimsfaraldurinn hefur þrengt nokkuð að fjáröflunarstarfi Hringsins fyrir meðal annars barnaspítala Hringsins og BUGL enda safna samtökin helst fé með fjöldasamkomum: bazar, jólakaffi og öðru slíku.

Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins, segir fjárþörfina þó því miður ekkert hafa minnkað og því hafi verið ákveðið að halda rafrænt sumarbingó í dag, síðasta vetrardag.

Grínfélagarnir Hjálmar Örn og Eva Ruza stjórna bingóinu sem stendur í klukkustund og hefst á YouTube klukkan 18. Hægt er að kaupa bingóspjöld á tix.is. Allur ágóði bingósins rennur óskiptur í Barnaspítalasjóð Hringsins.

„Hringurinn hafði samband við mig og Evu Ruzu og kannski var auðveldast í heimi fyrir þau að pikka okkur tvö út vegna þess að við erum jú einhverjir allra reyndustu bingóstjórar landsins,“ segir Hjálmar Örn, hlær og bætir við að þau hafi stjórnað gríðarlega mörgum bingóum, bæði fyrir fullum sal og á netinu.

„Við gátum náttúrlega ekki sagt nei og þau ekki heldur nei við okkur þannig að þetta var eiginlega „match made in heaven“ og við erum líka rosalega þakklát fyrir að þau hafi valið okkur,“ segir Hjálmar og lofar geggjuðu stuði.

Guðrún Þóra Arnardóttir og Anna Björk Eðvarðsdóttir með hluta vinninganna í bingóinu sem hefst á YouTube klukkan 18.
Mynd/Hringurinn

„Þetta eru rosalegir vinningar og ég held að heildarverðmæti vinninga sé ein komma átta milljón, kallinn minn. Það er bara svoleiðis. 1,8 milljón.“

Meðal vinninga eru snjallúr, hótelgistingar, þyrluflug yfir gosstöðvarnar og margt fleira. Anna Björk segir Hringinn að þessu sinni vera að safna fyrir tveimur tækjum; svefnrita og koltvíoxíðmæli til að rannsaka kæfisvefn barna. Samanlagt kosta tækin 8.600.000 krónur.⁠