Eva Rún Snorradóttir, sviðslistakona og ljóðskáld, hlaut Maístjörnuna, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafns Íslands.

„Ég var mjög ánægð með þetta. Það kom mér á óvart,“ segir Eva Rún í samtali við Fréttablaðið og bætir við að verðlaunin séu mikil hvatning til að halda áfram að skrifa.

Verðlaunin voru veitt í þriðja sinn við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í gær. Um er að ræða einu verðlaunin á Íslandi sem eingöngu eru veitt fyrir útgefnar íslenskar ljóðabækur. Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður bauð gesti velkomna og flutti dómnefndin rökstuðning fyrir vali sínu.

„Fræ sem frjóvga myrkrið (Benedikt bókaútgáfa, 2018) er frumleg og fjölbreytt ljóðabók þar sem skáldið Eva Rún Snorradóttir bregður á leik með ýmis form, allt frá örleikritum til prósaljóða. Fyrri hluti bókarinnar er margradda lýsing á ferð vinkvenna til sólarlanda sem reynist í senn nöturleg og fyndin. Síðari hlutinn er einlægari og myndrænni og þar eru ljóð sem lýsa vináttu, sársauka, sjálfsuppgötvun og annarlegum heimi á áleitinn hátt. Þannig beitir Eva Rún ólíkum sjónarhornum og formum sem sameina hið ljóðræna og leikræna og nær með því að draga upp sterka og margræða mynd af heiminum sem hreyfir við lesandanum,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.

Ljóðskáldin sem tilnefnd voru til Maístjörnunnar.
Rithöfundasamband Íslands

Tilnefndar voru bækurnar Ódauðleg brjóst eftir Ásdísi Ingólfsdóttur, Fræ sem frjóvga myrkrið eftir Evu Rún Snorradóttur, Sálumessa eftir Gerði Kristnýju, Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson, Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur og Homo economicus I eftir Sigfús Bjartmarsson.

Dómnefnd skipa Sveinn Yngvi Egilsson fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Eva Kamilla Einarsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins.