Lag Daða Freys Péturs­sonar, sem keppir fyrir Ís­lands hönd í Euro­vision-söngva­keppninni í Rotter­dam í maí, verður frum­flutt í nýjum sjón­varps­þætti, Straumum, á RÚV 13. mars.

Í til­kynningu frá RÚV kemur fram að Daði vinni hörðum höndum að því klára lagið sem verður frum­flutt og opin­berað þann 13. mars. Lagið fer í loka­hljóð­blöndun á næstu dögum, búningar og svið­setning eru í undir­búningi og fram­undan er gerð tón­listar­mynd­bands sem frum­sýnt verður í lok mars. Einnig stendur til að gefa út tölvu­leik þar sem Daði og Gagna­magnið verða í lykil­hlut­verki.

Daði og Gagna­magnið halda að ó­breyttu til Rotter­dam í byrjun maí og lagið verður flutt á sviðinu í Rotter­dam fimmtu­daginn 20. maí. Komist lagið á­fram verður það svo flutt aftur í úr­slita­keppninni 22. maí.

Í til­kynningu RÚV er einnig greint frá tveimur nýjum þáttum sem hefja göngu sína á RÚV á næstu misserum og Daði Freyr kemur við sögu.

Fyrst ber að nefna heimilda­þætti sem fjalla um Daða og Gagna­magnið og lagið What Is Love? (Hvað með það?) sem lenti 2. sæti í Söngva­keppninni 2017. Þar verður einnig fjallað um gott gengi lagsins „Think about Things“ sem átti að keppa fyrir Ís­lands hönd í Euro­vision í fyrra. Lagið sló ræki­lega í gegn í fyrra og hefur nú verið spilað um 66 milljón sinnum á tón­listar­veitunni Spoti­fy. Mikil eftir­vænting er fyrir nýja laginu í Euro­vision-heiminum en Daða er nú spáð efstu sætunum í veð­bönkum ytra.

Leik­stjórinn og fram­leiðandinn Fannar Sveins­son sér um gerð þáttanna á­samt Bene­dikt Vals­syni.

Frumflutt í nýjum þáttum um íslenska tónlist

Þá er í til­kynningunni einnig greint frá því að 13. mars hefjist nýir tón­listar- og skemmti­þættir á laugar­dags­kvöldum. Þættirnir bera heitið Straumar og fjalla um strauma og stefnur í tón­list og tíðar­anda hér­lendis og er­lendis á síðast­liðnum ára­tugum. Um­sjónar­menn þáttanna verða þau Björg Magnús­dóttir og Freyr Eyjólfs­son og tón­listar­stjóri verður Guð­mundur Óskar Guð­munds­son, en í þættinum flytja fram­bæri­legustu söngvarar landsins sínar út­gáfur af lögum frá tíma­bilunum.

„Fjallað verður um hin og þessi tíma­bil í popp- og dægur­menningar­sögunni með á­herslu á hin svo­kölluðu æði, dellur og fár. Fjallað verður meðal annars um eitís­tíma­bilið, Bítla­æðið, diskó­æðið og auð­vitað Euro­vision-fárið sem hefur staðið yfir með hléum frá árinu 1956,“ segir í til­kynningu um þáttinn.

Fyrsti þáttur Strauma fjallar um Euro­vision-keppnirnar í áranna rás og þar verður lag Daða Freys frum­flutt.