Lag Daða Freys Péturssonar, sem keppir fyrir Íslands hönd í Eurovision-söngvakeppninni í Rotterdam í maí, verður frumflutt í nýjum sjónvarpsþætti, Straumum, á RÚV 13. mars.
Í tilkynningu frá RÚV kemur fram að Daði vinni hörðum höndum að því klára lagið sem verður frumflutt og opinberað þann 13. mars. Lagið fer í lokahljóðblöndun á næstu dögum, búningar og sviðsetning eru í undirbúningi og framundan er gerð tónlistarmyndbands sem frumsýnt verður í lok mars. Einnig stendur til að gefa út tölvuleik þar sem Daði og Gagnamagnið verða í lykilhlutverki.
Daði og Gagnamagnið halda að óbreyttu til Rotterdam í byrjun maí og lagið verður flutt á sviðinu í Rotterdam fimmtudaginn 20. maí. Komist lagið áfram verður það svo flutt aftur í úrslitakeppninni 22. maí.
Í tilkynningu RÚV er einnig greint frá tveimur nýjum þáttum sem hefja göngu sína á RÚV á næstu misserum og Daði Freyr kemur við sögu.
Fyrst ber að nefna heimildaþætti sem fjalla um Daða og Gagnamagnið og lagið What Is Love? (Hvað með það?) sem lenti 2. sæti í Söngvakeppninni 2017. Þar verður einnig fjallað um gott gengi lagsins „Think about Things“ sem átti að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision í fyrra. Lagið sló rækilega í gegn í fyrra og hefur nú verið spilað um 66 milljón sinnum á tónlistarveitunni Spotify. Mikil eftirvænting er fyrir nýja laginu í Eurovision-heiminum en Daða er nú spáð efstu sætunum í veðbönkum ytra.
Leikstjórinn og framleiðandinn Fannar Sveinsson sér um gerð þáttanna ásamt Benedikt Valssyni.
Frumflutt í nýjum þáttum um íslenska tónlist
Þá er í tilkynningunni einnig greint frá því að 13. mars hefjist nýir tónlistar- og skemmtiþættir á laugardagskvöldum. Þættirnir bera heitið Straumar og fjalla um strauma og stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis á síðastliðnum áratugum. Umsjónarmenn þáttanna verða þau Björg Magnúsdóttir og Freyr Eyjólfsson og tónlistarstjóri verður Guðmundur Óskar Guðmundsson, en í þættinum flytja frambærilegustu söngvarar landsins sínar útgáfur af lögum frá tímabilunum.
„Fjallað verður um hin og þessi tímabil í popp- og dægurmenningarsögunni með áherslu á hin svokölluðu æði, dellur og fár. Fjallað verður meðal annars um eitístímabilið, Bítlaæðið, diskóæðið og auðvitað Eurovision-fárið sem hefur staðið yfir með hléum frá árinu 1956,“ segir í tilkynningu um þáttinn.
Fyrsti þáttur Strauma fjallar um Eurovision-keppnirnar í áranna rás og þar verður lag Daða Freys frumflutt.