Daði Freyr og Gagnamagnið eru mætt til Rotterdam og kominn upp á hótel. Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins, ræddi við Fréttablaðið meðan hann tók upp úr töskunni og lýsti stemningunni í Rotterdam.

„Þau eru öll svakalega spennt, enda eru Daði og Gagnamagnið búin að vera að undirbúa sig í heilt ár fyrir þetta. Ég held að allir séu tilbúnir til að vinna þetta og koma heim með hljóðnemann,“ segir Felix.

Hópurinn lenti í Rotterdam snemma í morgun, úr sól og blíðu á Íslandi og yfir í skítaveður og rigningu í Hollandi, og er þegar búinn að heimsækja höllina einu sinni og fara í skimun.

„Fyrsta skimun af mörgum,“ útskýrir Felix. Að sjálfsögðu eru strangar reglur vegna COVID-19 og allir þátttakendur og sjálfboðaliðar skimaður á 48 klukkustunda fresti. Skipuleggjendur tryggja að allir mæti í skimun með því að gera aðgangspassann óvirkan eftir 48 stundir, sem virkar bara þegar niðurstöður eru neikvæðar.

„Þetta er rosalega aðgerð og mikið skipulag. Búið er að reisa heila tjaldborg með þrjátíu básum fyrir utan þar sem verið er að prófa fólk stöðugt. Það var rólegt þegar við mættum í skimun en það verður mikið að gera þar næstu daga. Þau eru með svona öndunarpróf, nýjustu tæknin í kórónaveiruskimun, og ef það fæst ekki strax úr því neikvæð útkoma fær fólk pinnann upp í nefið,“ segir Felix.

Næst á dagskrá hjá hópnum er að hitta sjálfboðaliðana sem verða þeim innan handa allan tímann. Felix segir Rotterdam Ahoy höllina líta mjög vel út, enda stórt og flott mannvirki eins og má sjá á myndum.

„Það er ofboðslega leiðinlegt fyrir Hollendingana að geta ekki fyllt höllina. En það verða 3500 manns í salnum sem verður fínt. Það er alltaf gott að fá viðbrögðin og heyra í áhorfendunum.“

Mynd: Eurovision Song Contest
Mynd: Eurovision Song Contest

Fyrsta æfing Daða og Gagnamagnsins verður á mánudaginn næstkomandi. Daði verður áttundi á svið síðara undanúrslitakvöldið, fimmtudaginn 20. maí. Hann er á eftir Moldóvum og á undan Serbum en því síðarnefnda hefur verið spáð upp úr riðlinum. Lokakvöldið verður laugardaginn 22. maí og hafi veðbankarnir rétt fyrir sér munum við Íslendingar eiga okkar fulltrúa þar.