Fyrrum sigur­vegari Evrópsku söngva­keppninnar, Salvador Sobral, virðist hafa lítinn á­huga á keppninni í ár. Líkt og al­þjóð veit hefst undan­keppni Söngva­keppninnar í vikunni og úr­slita­kvöldið fer fram næst­komandi laugar­dag.

Sobral, sem kom sá og sigraði keppnina fyrir hönd Portúgal árið 2017, kveðst að­eins hafa heyrt tvö af þeim lögum sem keppa í ár. Annað laganna er frá hljóm­sveitinni The Black Mamba sem keppir fyrir Portúgal og hitt er frá franska keppandanum Barbara Pavi.

„Ég verð að vera hrein­skilin, ég veit ekkert hvað er að gerast í Euro­vision,“ sagði Sobral í sam­tali við BBC.

„Nokkrir vinir mínir eru í The Black Mamba og ég elska tón­listina þeirra,“ viður­kenndi Sobral þó og greindi einnig frá því að hann búi í grenndinni við Pavi. „Ég hlustaði á lagið hennar og fann fyrir þessari á­hrifa­ríku Jaqu­es Brel stemmningu sem ég fíla.“

Búin með Eurovision

Sobral varð þjóð­hetja á einni nóttu í Portúgal eftir að hafa slegið stiga­met í Euro­vision í Úkraínu árið 2017. En það gerði hann með laginu Amar Pelos Dois sem tryggði Portúgal sinn fyrsta sigur í keppninni.

Sobral hefur síðan verið nokkuð gagn­rýnin á keppnina sem hann segir ekki snúast um góða tón­list. Að hans mati var sigur hans í keppninni sigur fyrir tón­listina.

„Mín sam­leið með Euro­vision endaði þar. Nú þarf ég að halda á­fram og finna mér ný mark­mið,“ sagði Sobral. Hann bætti þó við að keppnin væri góð leið til að kynna list sína fyrir Evrópu.