Aðeins nokkrir dagar eru nú þar til Ísland mun stíga á stokk í Rotterdam á seinna undanúrslitakvöldi Eurovision en Daði og Gagnamagnið munu þar flytja framlag Íslands sem ber nafnið 10 Years. Óhætt er að segja að spennan sé mikil og eru sérlegir Eurovision aðdáendur þar fremst í flokki.

Daði er nú þekktur víða um heim og hefur aflað sér mikils fylgi á samfélagsmiðlum, til að mynda er hann með rúmlega 26 þúsund fylgjendur á Twitter og rúmlega 87 þúsund á Instagram. Í Facebook hópnum Júróvisjón 2021 er bent á að nokkrar stórstjörnur úr Eurovision séu þar á meðal.

Fyrrum sigurvegarar hrifnir

„Ég er að missa þvag hérna!“ skrifar einn Eurovision aðdáandi í hópnum og bendir á að Conchita Wurst, Emmelie de Forest, og Kateryna Pavlenko hafi skrifað ummæli við færslur Daða þar sem þær lýsa yfir aðdáun sinni.

Conchita sigraði keppnina árið 2014 fyrir Austurríki, Emmelie de Forest sigraði keppnina árið 2013 fyrir Danmörku, og Kateryna er söngkona hópsins Go_A, sem keppir í ár fyrir hönd Úkraínu.

Eins og staðan er í dag er Ísland í fjórða sæti í veðbönkunum með átta prósent líkum á sigri. Ítalía tók fyrsta sætið í veðbönkunum af Frakklandi í gær og þar á eftir kemur Malta. Nánast öruggt er að Ísland komist á lokakvöldið, sem fer fram næstkomandi laugardag. 

Fyrrum sigurvegarar Eurovison eru meðal þeirra sem fylgjast með Daða.