Heimsfaraldurinn þaggaði rækilega niður í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í fyrra og margir vilja meina að veiran hafi í leiðinni haft svo gott sem öruggan sigur af Íslendingum.

„Nú veit ég ekki,“ segir Daði Freyr sem þótti ásamt Gagnamagninu óneitanlega sigurstranglegasti keppandinn, með laginu Think about things. Hópurinn fær tækifæri til þess að gera aðra atrennu að Eurovision-titlinum í vor með laginu 10 years.

„Lagið er bara svolítið um það hvernig ástin breytist og verður meiri eftir því sem tíminn líður,“ segir Daði, sem samdi lagið um ástarsamband hans og Árnýjar Fjólu Ásmundsdóttur og tíu ár sem þau hafa eytt saman í blíðu, stríðu og Gagnamagninu.

„Ég byrjaði ekki að semja þetta fyrr en við vorum búin að fá það staðfest að við værum að fara að keppa og þá gerði ég þetta í rauninni svolítið svipað og ég gerði síðast,“ segir Daði Freyr.

Hirðir ekki um lekann

Laginu var lekið á netið í vikunni en Daði segist alls ekki láta þann fjára trufla sig og hann sé að fara að frumflytja 10 years á RÚV, heimavelli íslenskra Eurovision-fara, á laugardagskvöld klukkan 19.45.

„Ég er alveg á því og ætla ekkert að breyta mínu plani á neinn hátt út af þessu.“ Þá segir Daði, og bendir á að tæpast sé hægt að tala um lekann sem frumflutning, „Það er búið að setja einhver aukahljóð yfir þetta og hljómgæðin á þessu eru misgóð og eitthvað þannig.“

Þar sem lagið snýst um samband þeirra Árnýjar má ætla að hún hafi haft sitthvað um tónsmíðina að segja. „Já, já. Hún gerir það um allt sem ég geri. Það skiptir engu máli hvað það er.“ Daði bætir við að fyrir utan sjálfan sig taki hann alltaf mest mark á skoðunum Árnýjar.

Augu Árnýjar

„Ég get líka mjög oft verið búinn að ákveða að eitthvað sé rosa næs og svo spila ég það fyrir hana og sé þá bara í augunum á henni hvað henni finnst. Þá fatta ég stundum að þetta var kannski ekki alveg málið.“

Daði segir stemninguna í Gagnamagninu fyrir töku tvö í Eurovision vera góða, enda ekki um neina endurtekningu að ræða. „Þetta er í rauninni allt öðruvísi núna heldur en síðast. Þá vorum við fyrst að gíra okkur upp í Söngvakeppnina og svo fyrir Eurovision í nokkra daga, en það breyttist fljótt eftir að við unnum Söngvakeppnina.“ Daði segir tvennt ólíkt að fara þessa hefðbundnu leið en að sleppa keppninni hérna heima og fara strax í Eurovision-undirbúninginn.

Þegar talið berst að keppninni sem aldrei fór fram í fyrra er ljóst að Daði hefur ekki þurft neina áfallahjálp til þess að komast yfir þau vonbrigði.

Gagnamagnið horfir til nýs Eurovision-ævintýris. Mynd/Thulephoto

„Leiðinlegast fannst mér bara að við værum ekki að fara saman út sem hópur og upplifa brjálæðið sem mér skilst að Eurovision eigi að vera,“ segir Daði og tekur því ekki síður af stóískri ró að þrátt fyrir annað tækifæri virðist Gagnamagninu ekki ætlað að upplifa alvöru Eurovision. Ekki í bili í það minnsta.

Taka 2

„Það verður náttúrlega einhver öðruvísi útgáfa af þessu núna. Það verður ekkert þessi fjölmiðlahávaði né öll þessi Eurovision-partí. Við verðum örugglega bara svolítið uppi á hóteli. En ég er ánægður með lagið og við erum að fara í miklu stærri pakka í kringum þetta allt en ég hefði getað gert í fyrra,“ segir Daði, sem telur að athyglin frá því í fyrra geti komið hópnum vel.

„Ég held að þetta vinni ekki gegn okkur nema kannski hjá þessum hörðustu Eurovision-aðdáendum,“ segir Daði og minnir á að Gagnamagnið sé búið að vera lengi ofarlega í veðbönkum án þess að vera komið með lag.

„Við erum með litríka búninga og skrýtinn dans og hresst atriði og þessir hörðustu Eurovision-aðdáendur eru ekkert allir þar og þeir vilja kannski aðeins fágaðari keppni en við erum kannski að bjóða upp á. En ég held að þetta hafi voða lítil áhrif eða bara jákvæð í sjálfri keppninni.“

„Við erum með litríka búninga og skrýtinn dans og hresst atriði og þessir hörðustu Eurovision-aðdáendur eru ekkert allir þar og þeir vilja kannski aðeins fágaðari keppni,“ segir Daði.
Mynd/Birta Rán

Streymi vinsældanna

Ísland er þessa dagana í fyrsta sæti á veðbönkum yfir sigurvegara Eurovision 2021 og Think about things er með yfir 70 milljón hlustanir á Spotify og 25 milljónir áhorfa á YouTube.

Það er því ástæðulaust að vanmeta mátt Eurovision og Daði segir keppnina í fyrra vissulega hafa gefið Gagnamagninu fljúgandi start með Think about things til að byrja með.“ Þegar lagið sprakk út í framhaldinu segist Daði hafa farið að sjá tölur sem hann hefði aldrei búist við.

„Þetta hjálpar mjög mikið og það má segja að maður komist með fótinn inn fyrir dyrnar. Spurningin er síðan hvort maður nái að stíga alveg inn fyrir. Það er alls ekkert einhver ávísun á velgengni lags að taka þátt í Eurovision,“ segir Daði reynslunni ríkari.

„Það er núna í fyrsta skipti að koma eitthvað sem skiptir máli út frá streymi en þetta rennur ennþá bara svolítið aftur í sjálft sig,“ segir Daði þegar hann er spurður hvort peningarnir flæði inn í gegnum streymisveiturnar. „Það lítur allaveganna út fyrir það að ef ég næ að halda boltanum uppi geti ég lifað ágætlega á þessu næstu árin. Það er alls ekki komið ennþá.“

Super-Daði

Daði segir brjálað að gera hjá sér í aðdraganda keppninnar og að líf hans snúist bara um Eurovision um þessar mundir. Gagnamagnið vasast líka í ýmsu og þannig eru til dæmis tveir tölvuleikir tengdir hópnum í vinnslu.

„Jói í Gagnamagninu er svolítið að halda utan um þetta og við fundum fólk í gegnum Instagram til að hjálpa okkur,“ segir Daði og bætir við að annar leikurinn sé ævintýri í anda Super-Mario Bros, en í hinum sé verið að leika með Gagnamagnslögin þrjú sem hafa komið út.

Síðarnefndi leikurinn er lengra kominn, en Daði vonast til þess að báðir verði komnir út fyrir Eurovision. „Við erum öll í leiknum og jafnvel einhverjir eldri íslenskir Eurovision-farar, það er aldrei að vita,“ segir Daði um ævintýraleikinn. „Þetta er að verða miklu, miklu stærra en það var í byrjun. Ég hefði aldrei lagt í þetta svona frá upphafi en þetta eru bara algjörir snillingar sem eru að vinna í leiknum.“

Með puttana í öllu

Tónlistarmyndbandið fyrir 10 years verður frumsýnt í lok mars. Guðný Rós Þórhallsdóttir leikstýrir en Birta Rán Björgvinsdóttir sér um myndatöku en þær gerðu einmitt myndbandið við Think about things í fyrra.

„Ég reyni nú að vera með puttana í öllu. Lovísa Tómasdóttir er að hanna búningana svona út frá okkar pælingum,“ segir Daði sem lætur sér greinilega fátt, ef nokkuð, óviðkomandi þannig að eiginlega er óhjákvæmilegt að spyrja hvort hann sé þessi dæmigerði, leiðinlegi ofstjórnandi?

„Mér finnst það ekki. En ég veit ekki. Þú verður að spyrja einhvern annan um það. Ég er svona að læra að stíga aðeins til baka og er búinn að vera í nákvæmlega öllu, bara við Árný, að gera allt síðustu tíu árin. Þetta er fyrsta skiptið sem ég er að treysta meira á aðra.“