Söngvakeppnin 2022, forkeppnin fyrir Eurovision, hefst á RÚV í næsta mánuði og verður nú haldin í fyrsta sinn í Söngvakeppnishöllinni sem rís í kvikmyndaveri RVK Studios í Gufunesi. Þar munu tíu lög keppa um hið eftirsótta hlutverk að verða fulltrúi Íslands í Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í Tórínó á Ítalíu í maí. Lögin verða gerð almenningi heyrinkunn á RÚV þarnæsta laugardagskvöld í sjónvarpsþættinum Lögin í Söngvakeppninni sem kynnar ársins, Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Jón Jónsson og Björg Magnúsdóttir, eru á fullu að undirbúa.

Gleðitankur þjóðarinnar

Ragnhildur Steinunn og Björg boða fjölbreytilegan flytjendahóp í þættinum. ,,Við erum einmitt að leggja lokahönd á þáttinn Lögin í Söngvakeppninni þar sem hulunni verður svipt af lögunum. Við erum á leið – til Tórínó, í orðsins fyllstu merkingu,“ segir Ragnhildur Steinunn og bætir við að þátturinn verði mikið til tekinn upp í hinum svokallaða Euro-strætó.

Gleðivagninn verður á ferðinni næstu vikurnar.
Mynd/Aðsend

Vagninn er nú þegar kominn út í umferðina og enginn þarf að velkjast í vafa um að tankurinn á honum er stútfullur af gleði. Kærkominni Júrgógleði. Vagninn ók um Reykjavík um helgina, skreyttur myndum af fyrri fulltrúum Íslands í Eurovision. Vagninn er ekki síður skrautlegur að innan en almenningi mun gefast kostur á að skoða hann næstu vikurnar.

Strætó stökk á vagninn þegar RÚV hafði samband.

„Það er í nægu að snúast þessa dagana og áskoranirnar eru nokkrar en við höldum ótrauð áfram og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að geta lagt okkar af mörkum til að fyllt á gleðitank þjóðarinnar með Söngvakeppninni,“ segir Ragnhildur Steinunn. „Það eru komin tvö ár frá síðustu Söngvakeppni þannig að við erum farin að iða í skinninu.“

Oft var þörf …

Björg tekur heils hugar undir með Ragnhildi Steinunni. „Já, oft var þörf en nú er beinlínis nauðsynlegt að keyra rækilega upp stemningu meðal þjóðarinnar eftir alltof langt Covid-híði,“ segir hún og heldur áfram.

Ragnhildur Steinunn, Jón og Björg verða í stuði í Euro-strætóinum.

„Söngvakeppnin er vorboðinn ljúfi, árlegur gleðigjafi þar sem við Íslendingar njótum þess að sjá og heyra frábært tónlistarfólk, bæði þekkt og minna þekkt, flytja fyrir okkur glæný lög sem mörg munu lifa góðu lífi í tónlistarsögunni um ókomna tíð.“

Björg bætir við að skemmtilegast af öllu sé svo að „leyfa sér að missa sig hundrað prósent í gleðinni og fara alla leið. Hlusta á öll lögin, kynna sér keppendur í þaula, halda geggjuð partí með vindvél, eðlu og öllu. Og svo auðvitað hvetja okkar fulltrúa til dáða í Tórínó á Ítalíu í vor.“

Diskókúlan ómissandi.

Diskókúla á hjólum

„Það er fyrst og fremst gaman fyrir Strætó að vera hluti af einum stærsta sjónvarpsviðburði ársins. Við gátum ekki sagt nei þegar RÚV hafði samband við okkur fyrr í vetur,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætós, um gleðivagninn.

Eru ekki allir í stuði?

Guðmundur Heiðar á ekki alveg jafnauðvelt með að svara þegar hann er spurður hvort Euro-strætóinn sé flottari en Gagnavagninn. „Ég veit ekki hvort ég hætti mér inn á þá braut. Þetta er smekksatriði, en ég get hins vegar fullyrt að vagn Söngvakeppninnar er miklu flottari að innan. Við gáfum leikmyndadeild RÚV lausan taum og þau fylltu vagninn af diskókúlum og silfurtjulli.“

Þriðja hjólið

Söngvarinn Jón Jónsson, þriðja hjólið undir gleðivagni þáttarins, er ekki síður spenntur en Björg og Ragnhildur Steinunn. „Mér þótti virkilega gaman og forvitnilegt að kynnast Söngvakeppni-heiminum þegar Ragnhildur Steinunn plataði mig með fyrir fjórum árum,“ segir Jón.

Leikmyndadeildin fór alla leið þegar vagninn var skreyttur að innan.

„Og nú er ég enn spenntari enda reynslunni ríkari. Það eru líka tvö löng ár síðan keppnin var haldin og ætlunin er að gera allt stærra og flottara til að fagna endurkomunni. Svo hef ég enn ekki fundið neistann til að taka þátt sem söngvari þannig að það er fínt að lauma sér inn sem kynnir til að taka þátt í gleðinni.“

Söngvakeppnin fer fram laugardagskvöldin 26. febrúar, 5. mars og 12. mars en auk laganna tíu verða sem fyrr skemmtiatriði af ýmsum toga sem þríeykið mun keyra áfram á fullu gleðigasi enda von á erlendum Eurovision-stjörnum og Daði Freyr kemur vitaskuld fram á úrslitakvöldinu eins og venja er með fyrri Eurovision-fara.