Sandra Hlín starfar sem náms- og starfsráðgjafi í Borgarholtsskóla og á tveggja ára dóttur. Hún hefur áhuga á öllu milli himins og jarðar og þá ekki síst fólki. „Mín helstu áhugamál eru hreyfing, útivist og samvera með mínum nánustu. Svo er ég líka veik fyrir raunveruleikasjónvarpi en ég fel mig á bak við það að ég hafi brennandi áhuga á fólki, samskiptum og sögunni á bak við einstaklinginn.“

Lífið er ljúft. „Það er kannski skrítið að segja það en lífið er nokkuð ljúft og gott, ég er nákvæmlega þar sem mig langar að vera, bæði persónulega og í starfi.“

Aldrei í boði að hætta við

Aðdragandinn að hlaupaiðkun Söndru var óvenjulegur. „Það er kannski ekki hefðbundin saga, en vinkona mín skoraði á mig að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í áramótapartíi 2012–2013. Þeir sem þekkja mig vita að ég elska áskoranir og keppnir og ég sló til.“

Þrátt fyrir að hafa ekki verið jafnstemmd daginn eftir, var ekki inni í myndinni að hætta við. „Ég var ekki alveg jafnánægð með keppnisskapið þegar ég vaknaði morguninn eftir, en þar sem ég tók áskoruninni í vitna viðurvist var aldrei í boði að hætta við.“

Óhætt er að fullyrða að Sandra hafi byrjað á byrjuninni. „Á þessum tíma hafði ég ekki hlaupið neitt og gat ekki hlaupið nema á milli tveggja ljósastaura í einu þegar ég byrjaði.“

Sandra Hlín á fleygiferð. FR’ETTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Hún segir fyrstu mánuðina hafa tekið á. „Mér fannst ömurlega leiðinlegt að hlaupa fyrstu fjóra mánuðina og það eina sem hélt mér við efnið var að ég ætlaði að klára þessa áskorun. Á þessum tíma ætlaði ég bara að hlaupa þessa 10 km í ágúst og hætta svo.“

Æfing fyrir huga sem líkama

Það gekk á ýmsu en þrjóskan og þrautseigjan héldu Söndru við efnið. „Ég byrjaði bara sjálf og var mjög fljót að fá beinhimnubólgu og alls konar fylgikvilla, enda var ég bara í eldgömlum íþróttaskóm. Eftir smá rannsóknarvinnu sá ég að ég þyrfti að gera breytingar og ákvað að fjárfesta í góðum hlaupaskóm og byrjaði að fylgja prógrammi sem heitir „From couch to 5k“ (eða „Úr sófanum yfir í fimm kílómetra“). Þegar ég náði að hlaupa 5 km í fyrsta skipti án þess að labba og án þess að líða illa, fann ég eitthvað smella.“

Því fylgir oft heilmikil innri barátta að koma sér af stað. Sandra segir að eftir því sem hún hafi hlaupið meira hafi hugarfar hennar tekið breytingum og að fljótlega hafi hlaupið orðið hennar helsti orkugjafi. „Það tók alveg tíma að komast á þann stað, en í dag eru hlaupin eitthvað sem ég leita í þegar ég er þreytt eða undir mikilli streitu. Það koma auðvitað dagar þar sem ég er alls ekki í stuði en þá hugsa ég um hversu vel mér mun líða þegar ég klára. Ef ég er að fást við erfið verkefni, hvort sem það er persónulega eða í vinnunni, þá fer ég oft út að hlaupa og lausnin virðist bara koma til mín þegar ég er komin af stað. Eins er fátt sem gefur mér jafn mikla orku eins og hlaup, svo þegar ég er orkulaus, til dæmis eftir svefnlausar nætur, þá gefur það mér meiri orku að fara út að hlaupa heldur en að gera það ekki. En þetta er æfing fyrir hugann og það þarf að æfa hann eins og hlaupin sjálf.“

Sandra Hlín segir einna mikilvægast að vera í góðum skóm. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Þá getur tónlist einnig verið hvetjandi en Sandra segir að á meðan hlaðvörp verði oftast fyrir valinu í lengri hlaupum, þá ráði hressleikinn gjarnan förinni í styttri hlaupum. „Þegar ég tek lengri hlaup hlusta ég oftast á podcöst. Núna er ég að vinna mig í gegnum podcastið hjá Snorra Björns því mér finnst ótrúlega gott að hlusta á fólk sem hefur náð árangri og veitir mér innblástur með sínum sögum. Þegar ég er að fara styttri hlaup hlusta ég oftast á eitthvað hresst og skemmtilegt, þau lög verða ekki gerð opinber. Nema Euphoria með Laureen, það er eitt besta hlaupalag allra tíma! Ef ég er svo heppin að vera með hlaupafélaga eru hlaupin oftast nýtt til þess að spjalla, sem er algjört „win win“.“

Dýrmæt augnablik

Sandra segir heilsufarslegan ávinning hlaupsins ótvíræðan. „Líkamlegur ávinningur er auðvitað til staðar, ég komst í betra form og líður bara almennt betur í líkamanum. En andlegi ávinningurinn er sá sem skiptir mig mestu máli. Hlaupin eru mjög streitulosandi og veita almenna vellíðan. Það er líka auðvelt að sjá framfarir í hlaupum og það er hvetjandi að setja sér markmið og ná þeim og sjá árangurinn svart á hvítu.“

Þá er hlaupið einnig orðið að dýrmætri mæðgnastund, en dóttir Söndru, Hrafnhildur Sunna, nýtur þess í botn að slást í för með mömmu sinni. „Svo elska ég að geta samtvinnað hlaupin við samveru með dóttur minni. Hún kemur oft með mér að hlaupa í kerrunni og finnst það gaman. Þetta eru skemmtilegar samverustundir og er það orðið þannig að hún hleypur og nær í útifötin og prílar upp í kerruna þegar ég tek hana fram.“

Eftirminnilegasta augnablikið tengt hlaupi var þegar Sandra fékk hjartnæm skilaboð frá MND-félaginu. „Þegar ég byrjaði að hlaupa ákváðum við vinkonurnar að safna áheitum í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir MND-félagið. Félagið þakkaði okkur fyrir söfnunina með orðunum „takk fyrir að hlaupa fyrir okkur sem getum ekki hlaupið“. Þetta hefur fylgt mér alveg síðan og þetta hefur að vissu leyti orðið mantran mín, þegar kemur að hlaupum. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að geta bara reimað á sig skóna og hlaupið af stað og ég mun aldrei taka því sem sjálfsögðum hlut.“

Sandra hvetur fólk til þess að byrja rólega og segir lykilatriði að vera í góðum skóm. „Ég vil hvetja alla sem langar til þess að hlaupa, að taka skrefið. Fjárfesta í góðum skóm og byrja rólega og vinna sig upp. Ekki miða þig of mikið við næstu manneskju, þú veist ekki hvort hún er að taka sitt fyrsta hlaup eða er búin að hlaupa í 20 ár.

Nýttu aðra hlaupara sem hvatningu, settu þér lítil markmið, njóttu þess að ná þeim og mundu að hafa gaman þótt þetta sé stundum erfitt.“