Dagbjartur var hársbreidd frá því að næla sér í gullverðlaun á mótinu en hann varð að láta sér lynda silfurverðlaunin með kasti sem mældist einum sentímetra styttra en sigurkastið. Portúgalinn Leandro Ramos hreppti gullverðlaunin en hann þeytti spjótinu lengst 78,57 metra en Dagbjartur Daði kastaði 78,56 metra.
Þetta er besta byrjun Dagbjarts á tímabilinu frá upphafi en kast hans í Leira er það þriðja lengsta hjá honum á ferlinum. Hann á best 79,57 metra sem hann náði á Meistaramóti Íslands á Akureyri fyrir tveimur árum.
„Árangurinn í Portúgal var vonum framar hjá mér. Ég var ekki alveg að búast við því að vera svona ferskur svona snemma árs enda hefur maður aðeins komist tvisvar sinnum út að kasta hér heima á þessu ári. Ég kastaði tveimur metrum lengra en ég hef áður gert í byrjun keppnistímabilsins og þetta veit bara á gott,“ segir Dagbjartur Daði.
Eins og áður segir var Dagbjartur grátlega nærri því að hreppa gullverðlaunin á Evrópubikarskastmótinu en alls voru keppendur 14 sem tóku þátt í spjótkastskeppninni.
„Þetta var pínu svekkjandi. Ég hélt að við hefðum endað jafnir en svo kom í ljós að mitt kast mældist einum sentímetra styttra. En þetta var góð keppni og skemmtileg og ég get ekki annað en verið mjög ánægður með mína frammistöðu.“
Dagbjartur hefur tvö undanfarin ár verið við nám og keppni í Bandaríkjunum en ákvað að snúa aftur heim.
„Ég var ekki alveg í því námi sem ég vildi vera í og svo er þjálfari minn búsettur á Íslandi. Ég ákvað því að koma heim en dvölin í Bandaríkjunum var fín og ég bý vel að henni hvað spjótkastið varðar.“
Hefur goðsögn sem þjálfara
Þjálfari Dagbjarts er goðsögnin Einar Vilhjálmsson, sem á árum áður var frábær spjótkastari, stóð sig afar vel á alþjóðlegum mótum og vann til fjölda verðlauna hér heima og erlendis. Einar var í þrígang útnefndur íþróttamaður ársins og fyrir tveimur árum var hann útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ.
„Við Einar höfum verið saman í tæp níu ár og það er frábært að geta verið með svona góðan vin og goðsögn til að leiðbeina sér,“ segir Dagbjartur, sem er 26 ára gamall. Hann segist eiga helling inni.
„Ég er búinn að vera að kasta spjóti í net eins og maður gerir á veturna hér heima. Það er erfitt að fá svör við því hvernig spjótið er að fara út úr hendinni þegar maður kastar því í net og það má eiginlega segja að ég hafi fengið hálft víðáttubrjálæði þegar ég keppti á mótinu í Portúgal. Maður verður eins og lamb á vorin. Hleypur um og kastar einhvern veginn,“ segir Dagbjartur og hlær.
„Ég á mjög mikið inni. Það verður mikil vinna næstu tvo mánuðina. Ég ætla mér að kasta yfir 80 metrana sem fyrst og stóra markmiðið er að tryggja sér þátttökurétt á HM sem haldið verður í Búdapest í ágúst. Lágmarkið er 85 metrar en ég reikna ekki með því að þurfa að kasta svo langt til að ná lágmarkinu. Núna snýst þetta aðallega um að komast á einhver góð mót erlendis og ná stöðugleika. Í fyrsta skipti í langan tíma verður haldið Norðurlandamót utanhúss sem verður í Danmörku í maí, þar sem ég verð með, og svo er Evrópubikarmót í júní,“ segir Dagbjartur.
Frjálsar íþróttir hafa skipað stóran sess í lífi Dagbjartar frá unga aldri en foreldrar hans gerðu garðinn frægan á árum áður. Móðir hans, Martha Ernstsdóttir, vann til fjölda verðlauna í langhlaupum og faðir hans, Jón Oddsson, var öflugur spretthlaupari. Þau eru bæði virk í sportinu og eru þjálfarar.
„Ég byrjaði snemma að æfa frjálsar en frá því við Einar byrjuðum að vinna saman árið 2014 hef ég eingöngu einbeitt mér að spjótkastinu.“