Snæfríður setti tvö glæsileg Íslandsmet í skriðsundi í 50 metra laug á mótinu. Hún bætti 14 ára gamalt met Ragnheiðar Ragnarsdóttur í 100 metra skriðsundi. Hún synti vegalengdina á 55,61 sekúndu en Snæfríður sló metið þegar hún synti fyrsta sprettinn í 4x100 metra boðsundi. Sveit hennar vann gullverðlaunin í greininni.

Þá bætti Snæfríður eigið met í 200 metra skriðsundi. Sigurtími hennar var 1:59,75 mínútur en eldra met hennar var 2:00,20 mínútur sem hún setti á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk sundkona syndir á undir tveimur mínútum í 50 metra laug í þessari grein.

Snæfríður á einnig Íslandsmetin í 100 og 200 metra baksundi í 25 metra laug en þau setti hún á HM í Melbourne í Ástralíu í desember síðastliðnum.

„Ég er vitaskuld ánægð með árangur minn á mótinu. Þetta var mjög stórt að ná að synda 200 metrana á undir tveimur mínútum en það var eitthvað sem ég var búin að reyna að ná í langan tíma,“ segir Snæfríður þegar Fréttablaðið slær á þráðinn til hennar til Danmerkur.

„Ég reiknaði ekki með því að slá metið í 100 metra skriðsundinu og ég vissi hreinlega ekki af því að ég hefði slegið það fyrr en talsvert eftir sundið. En það var ansi góð tilfinning þegar ég áttaði mig á því að hafa slegið þetta met sem hafði staðið svo lengi. Þetta var því mjög góð helgi og ég er bara stolt af sjálfri mér.“

Átti ekki von á þessu núna

Snæfríður segist ekki hafa búist við því að ná að synda svona hratt eins og raun bar vitni á þessum tímapunkti.

„Ég átti alls ekki von á því að þetta myndi gerast núna. Ég er búin að vera í þungum æfingum og er nýkomin úr tveggja vikna æfingabúðum. En ég var vel upplögð frá fyrsta keppnisdegi og ég hafði trú á sjálfri mér,“ segir Snæfríður.

Snæfríður er 22 ára gömul og hefur verið búsett í Danmörku frá því hún var níu ára gömul en hún hóf sundferil sinn með Hamri í Hveragerði. Hún syndir fyrir sundlið Álaborgar og varð danskur bikarmeistari með því í nóvember. Snæfríður sló fimm Íslandsmet á síðasta ári og var útnefnd sundkona ársins 2022 af Sundsambandi Íslands og það í annað sinn.

Snæfríður á ekki heimangengt á Íslandsmótið í sundi í 50 metra laug sem haldið verður í Laugardalslauginni í byrjun næsta mánaðar.

„Mér var auðvitað boðið að koma heim til Íslands og keppa en þar sem opna danska mótið fer fram á sama tíma kem ég ekki. Liðið sem ég æfi og keppi með verður allt með á þessu móti í Danmörku. Það er mikil samstaða í liðinu og samkeppnin hörð og ég ætla að standa mig vel á mótinu,“ segir Snæfríður.

Hún segist stefna á að tryggja sér þátttökurétt á HM sem fram fer í Fukuoka í Japan í júlí og þá dreymir hana um að taka þátt í sínum öðrum Ólympíuleikum en þeir verða haldnir í París á næsta ári.

„Það lítur vel út núna að ég nái að tryggja mér sæti á HM og ég stefni að sjálfsögðu á að komast þangað. Ég ætti að ná að synda hraðar í apríl samkvæmt æfingaáætlun minni og vonandi tekst mér að ná lágmarkinu. Draumurinn er svo að keppa á Ólympíuleikunum í París en ég stilli þessu þannig upp að taka eitt skref í einu og vera ekki að stressa mig of mikið.“

Snæfríður hefur búið meira en helming ævi sinnar í Danmörku og líkar dvölin vel þar. Hún flutti með fjölskyldu sinni til Árósa en er nú búsett í Álaborg.

„Ég er ekkert á heimleið. Það er í nógu að snúast hjá mér. Ég er í háskólanámi og er á öðru ári í sálfræði og svo eru stífar æfingar og keppni með sundliðinu mínu,“ segir Snæfríður, sem byrjaði feril sinn í sundlauginni í ungbarnasundi.