Kona fer í gönguferð – 799 kílómetrar – 34 dagleiðir er ný ljóðabók eftir Hönnu Óladóttur. Umfjöllunarefni ljóðanna er gönguferð sem kona fer eftir hinum heilaga Jakobsvegi á Spáni. Nokkuð sem Hanna gerði í tveimur hlutum, árið 2016 og 2017.

Tákn fyrir lífsgönguna

Spurð hvaða áhrif það hafi haft á hana að ganga Jakobsveginn segir Hanna: „Það að ganga þessa leið hafði mjög djúp áhrif á mig. Þarna hafði ég tíma til að hugsa og vera með sjálfri mér án þess að vera trufluð. Þetta var dálítið eins og að vera í annarri vídd. Ég lýsi því á einum stað í bókinni að þegar konan er á gangi er um leið eins og hún horfi á líf sitt á Íslandi úr hliðarveruleika.

Það sem er svo áhrifamikið við að ganga þessa leið er að allir ganga í sömu átt. Gangan er tákn fyrir lífsgönguna. Fyrsti hluti göngunnar, fjallgangan, er fæðingin og ungdómsárin, það er erfiðasti hlutinn. Miðjan er sléttan þar sem reynir á úthaldið og í síðasta hlutanum sér maður í mark en vill samt ekki að gangan endi. Það var búið að segja mér að á síðustu 100 kílómetrunum yrði mikið fjölmenni því það er nóg að ganga þá vegalengd til að fá syndaaflausn. Þarna var gríðarlegt fjölmenni og mikið af Asíubúum. Ég fékk sterka tilfinningu fyrir því að vera hluti af mannkyninu og fann svo greinilega hversu margir hafa gengið þarna í gegnum tíðina.“

Ákveðin heilun

Þetta er önnur ljóðabók Hönnu en árið 2019 kom ljóðabókin Stökkbrigði. Hún segir að sú bók hefði ekki orðið til nema vegna þess að hún gekk Jakobsveginn. „Það opnuðust ákveðnar gáttir og sú ljóðabók varð til. Hún fjallar um barnsmissi, ég missti tvö börn, eins og hálfs og tveggja ára, úr óútskýrðum erfðasjúkdómum sem herjuðu á þau. Slíkt áfall er stórt fyrir eina tilfinningaveru. Mér fannst ég verða að gera eitthvað meira við þær tilfinningar en að láta þær bara velkjast um í höfðinu. Ljóðin settu missinn í stærra samhengi og gáfu tilfinningunum þann sess sem þær áttu skilið. Þannig að sú ljóðabók var ákveðin heilun. Ég reyndi þó að skrifa hana þannig að hún væri ekki einungis lýsing á persónulegri reynslu,“ segir Hanna sem bætir við að þau hjónin hafi í framhaldinu ættleitt tvö börn.

„Eftir að ég orti Stökkbrigði fór Jakobsvegurinn að leita mjög á mig. Kona fer í gönguferð fjallar samt ekki um mig þótt hún sé vissulega byggð á reynslu minni. Í fyrsta ljóðinu er konan til dæmis svipt ökuréttindum sínum en það hefur aldrei hent mig!“