Meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun er tveggja ára nám sem lýkur með prófgráðunni Master of Accounting and Auditing (M.Acc.). Þegar Fríða hóf nám haustið 2015 var hún staðráðin í því að taka löggildingarpróf í framhaldi af M.Acc-gráðunni og hún segist þess vegna hafa lagt sig sérstaklega mikið fram við námið.

„Ég útskrifaðist úr náminu vorið 2017 og tók svo löggildingarprófið haustið 2019. Ég fékk síðan löggildingu í desember 2019,“ segir Fríða sem starfar nú hjá endurskoðunarfyrirtækinu BDO.

„Mér fannst námið mjög gagnlegt og skemmtilegt. Það var líka mjög vel skipulagt en því er skipt þannig að þú tekur tvær sex vikna lotur á hverri önn og ert í tveimur fögum í hverri lotu. Eftir lotuna eru svo próf. Það var búið að skipuleggja allt árið þannig að ég vissi alltaf hvenær ég var í prófum og hvenær ég var í tímum. Það hentaði mér mjög vel því ég var með þrjú börn. Námið hentar líka vel með vinnu því það er alltaf kennt seinnipartinn á daginn, eftir klukkan fjögur,“ útskýrir Fríða.

„Námið var vissulega krefjandi, en nám er auðvitað bara jafn krefjandi og það sem fólk leggur á sig við það. Þú færð auðvitað meira út úr náminu því meira sem þú lest. Námið er hannað þannig að hægt sé að taka það með vinnu sem flestir gerðu og það var vel hægt. Ég byrjaði sjálf að vinna hjá BDO með náminu árið 2016 en margir samnemendur mínir voru þegar farnir að vinna á endurskoðunarskrifstofu þegar námið hófst.“

Hafði aldrei unnið við endurskoðun

Fríða segir að áður en hún byrjaði í endurskoðunarnáminu hafi hún aldrei unnið neitt við endurskoðun. „Ég er með BS í viðskiptafræði úr HÍ og tók svo master í alþjóðaviðskiptum í Kaupmannahöfn. Ég fór svo í þetta nám á gamals aldri, eða þegar ég var að nálgast fertugt,“ segir hún og hlær.

„Það eru kröfur um að vera búin að ljúka vissum fögum í grunnnámi til að komast í M.Acc.-námið. Ég þurfti því að bæta við mig tveimur fögum á fyrstu önninni, það var boðið upp á það. En ef fólk uppfyllir grunnskilyrðin þá komast flestir inn held ég.“

Fríða segir að námið hafi gagnast henni mjög vel í starfi. „Það kom mér á óvart hvað sum fög sem ég hélt að myndu ekki nýtast mér mikið hafa komið að miklu gagni en svo eru önnur fög sem ég hélt að myndu nýtast vel sem hafa ekki nýst eins vel og ég hélt. Það hjálpaði mér mikið þegar ég byrjaði að vinna á endurskoðunarskrifstofunni að vita um hvað endurskoðun snýst. En það eru samt ekki allir sem fara í þetta nám sem fara að vinna á endurskoðunarskrifstofu og alls ekki allir sem taka löggildingu. Þetta er gott nám hvort sem þú vilt vinna í fjármáladeildum fyrirtækja eða við endurskoðun.“

Það sem helst kom Fríðu á óvart við námið var hversu skemmtilegt það var.

„Þegar ég sagði fólki að ég væri að fara aftur í nám voru allir mjög spenntir. En þegar ég sagði þeim að ég ætlaði að taka master í endurskoðun voru viðbrögðin önnur, svona 80% af fólki hélt að námið væri svakalega kassalaga. En það er það alls ekki. En svo stendur líka upp úr hvað það var gaman að kynnast öllu fólkinu í náminu, bæði nemendum og kennurum. Ég mæli hiklaust með því fyrir fólk sem hefur áhuga.“