Ferðalög eru ein af vinsælustu dægrastyttingum samtímans og er talið að rúmlega 1,4 milljarður ferðalaga verði farinn til mismunandi borga í heiminum árið 2018, en nýverið birti breska rannsóknar-og greiningarfyrirtækið Euromonitor International skýrslu þar sem greint er frá hundrað vinsælustu borgum ársins

Vinsælasta borg ársins er Hong Kong en búist er við því að rúmlega 30 milljónir gesta heimsæki borgina áður en árinu lýkur og verða 50 prósent þeirra frá kínverska meginlandinu.

Borgir í Asíu eru langvinsælustu áfangastaðirnir samkvæmt listanum en 41 af 100 vinsælustu borgunum árið 2018 eru í Asíu. Þannig eru Bangkok, Singapore, Macau, Kuala Lumpur og Shenzhen allar í efstu tíu sætunum. Í þriðja sæti sitja hins vegar London og París í því sjötta en rúmlega 21 milljón og 17 milljónir manna heimsóttu evrópsku borgirnar tvær.

Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að bandarískir áfangastaðir eigi undir högg að sækja en vinsældir þeirra fara dvínandi. New York fékk 13,5 milljónir gesta og er eina borgin í báðum heimsálfum Ameríku til þess að komast inn á topp 20 listann. Í sæti númer 22 komst Miami en Los Angeles og Las Vegas voru í 27. og 28. sæti og vilja ferðamálayfirvöld í Bandaríkjunum meina að um sé að ræða svokölluð „Trump áhrif.“

Tuttugu vinsælustu borgirnar í heimi árið 2018:

1. Hong Kong
2. Bangkok, Tæland
3. London, England
4. Singapore
5. Macau
6. Paris, Frakkland
7. Dúbæ, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin
8. New York City, Bandaríkin
9. Kuala Lumpur, Malasía
10. Shenzhen, Kína
11. Phuket, Tæland
12. Istanbul, Tyrkland
13. Delhi, Indland
14. Tokyo, Japan
15. Róm, Ítalía
16. Antalya, Tyrkland
17. Tæpei, Tævan
18. Guangzhou, Kína
19. Mumbai, Indland
20. Prag, Tékkland