Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir rekur vefverslunina Heimavöllurinn.is en þar er hægt að fjárfesta í fótboltatreyjum merktum íslenskum fótboltakonum. Hún segir tímabært að ungar stúlkur geti speglað sig í sínum fótboltahetjum.

Helsta ástríða Huldu Mýrdal Gunnarsdóttur er fótboltinn, en hún byrjaði sjálf að æfa fimm ára gömul hjá KR. Faðir Huldu, Gunnar Mýrdal, var á þeim tíma læknir KR-liðsins og því kom ekkert annað til greina.

„Ég er líka ættuð frá Akranesi og þar snýst allt um fótbolta. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að horfa á spólur með afa mínum af eldgömlum heimsmeistaramótum,“ útskýrir hún.

Hulda stofnaði fótboltahlaðvarpið Heimavöllurinn með Mist Rúnarsdóttur í lok árs 2018.

„Við vorum sammála um að það væri galið að það væri ekki til eitt hlaðvarp um konur í fótbolta, ég skildi í raun ekki af hverju. Við bara bombuðum okkur í þetta og stofnuðum líka Instagram-reikning til að ná til fleira fólks. Þar höfum við sett efni inn daglega og það hefur í raun alveg sprungið. Markmiðið með því er að fólk kynnist fleiri leikmönnum í öllum deildum hér heima og úti, viti hvað er að gerast. Það er bara kominn tími á að draga leikmennina sem hafa náð svakalegum árangri síðustu árin fram í sviðsljósið, sem þær eiga skilið,“ segir Hulda, sem er algjörlega á því að það mættu vera mun fleiri konur í sjónvarpsþáttum og hlaðvarpsþáttum þar sem fjallað er um fótbolta.

Huldu þótti merkilegt að þrátt fyrir að vera ein besta fótboltakona landsins, þá seldi engin af stærri íþróttavörubúðum landsins treyju liðs Söru Gunnarsdóttur, Lyon.
Fréttablaðið/Getty

Frábær viðbrögð

Hulda fór að fá ábendingar frá foreldrum knattspyrnustúlkna um hvað það væri sorglegt að ungum stúlkum og drengjum stæði einvörðungu til boða að kaupa treyjur merktum karlkyns fótboltahetjum.

„Það er árið 2021. Það er bara skrítið að ung stelpa labbi inn í íþróttabúð og það sé ekki fullt af vörum af leikmönnum sem eru að sigra heiminn sem hún getur speglað sig í. Það eru galin skilaboð. Hvernig á að útskýra það fyrir átta ára stelpu sem langar að verða atvinnukona í fótbolta? Þannig að þess vegna varð heimavöllurinn.is til. Við ákváðum að hefja sölu á treyjum merktum stórstjörnunum og framleiða plaköt til að breyta leiknum. Það er svo geggjað að sjá hlutina breytast, viðbrögðin frá foreldrum, og við erum að gera þetta af lífi og sál. Við leggjum mikið upp úr því að gera þetta aðeins skemmtilegra. Til dæmis þessa dagana, ef þú kaupir Lyon eða Bayern München-treyju þá er hægt að biðja um áritun frá Söru Björk og Karólínu Leu Þýskalandsmeistara. Við viljum gera þetta almennilega,“ segir hún. Viðbrögðin hafa verið frábær en Hulda segir þau í raun ekki hafa komið sér á óvart

„Það segir sig bara sjálft. Við erum með treyjur af leikmönnum sem hafa náð ótrúlegum árangri og það eru fótboltakrakkar úti um allt sem líta upp til þeirra."

Þurfa líka að vera sýnilegar

Hulda segir það skipta máli fyrir unga fótboltaiðkendur að eiga fyrirmyndir. „Þær þurfa líka að vera sýnilegar. Með því valdeflum við ungar stelpur og þær sjá að þær geta látið drauma sína rætast eins og okkar bestu konur.“

Hún hefur orðið vör við að drengirnir séu líka að fjárfesta í treyjum merktum fótboltakonum, sem henni finnst mjög skemmtilegt.

„Já og það er geggjað. Ég var að labba í Fagralundi um daginn og sá tvo merkta Gunnarsdóttir. Þá hugsaði ég bara: „Frábært, það er vel hægt að breyta heiminum.“ Þetta á að vera jafn sjálfsagt og að stelpa sé í Sigurðsson-treyju. Foreldrar þurfa líka að taka ábyrgð, ég held að þeir átti sig ekki á því hvað þau geta bætt jafnrétti. Eins og Sara Björk Gunnarsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir. Þetta eru sturlaðar fyrirmyndir fyrir alla.“