Hið þögla, en göfuga mál, er yfirskrift 40 ára afmælissýningar Ljósmyndasafns Reykjavíkur sem verður opnuð í dag, laugardaginn 6. mars. Þar eru sýnd verk eftir Sigurhans Vignir (1894-1975) sem starfaði sem ljósmyndari frá 1917 til 1965, lengst af í Reykjavík. Hann skildi eftir sig verðmætt filmusafn sem varðveitt er á Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Borgarsögusafni. Í því eru ríflega 40 þúsund myndir, flestar teknar á árunum 1940-1965. Sýningargerð önnuðust: Gísli Helgason, Sigríður Kristín Birnudóttir, Kristín Hauksdóttir, Helga Maureen Gylfadóttir og Sigrún Kristjánsdóttir.

Vignir notaði nafnið Vignir og þess má geta að nafnið er ekki fallbeygt. Um Vignir segir Gísli: „Vignir var bóndasonur úr Laxárdal, einn af níu systkinum. Hann fór suður til Reykjavíkur um 1917 til að læra ljósmyndun. Sneri síðan aftur í sveitina í nokkur ár, opnaði ljósmyndastofu á Stykkishólmi en fluttist til Reykjavíkur 1926 og opnaði ljósmyndastofu með Óskari Gíslasyni. Hann opnaði síðan sína eigin ljósmyndastofu í Reykjavík árið 1929.“

Alls kyns verkefni

Ragnar Vignir, sonur Vignir, færði Ljósmyndasafni Reykjavíkur filmusafn föður síns árið 2006. „Þetta filmusafn, 40.000 myndir, er frá árunum 1940-1966. Safn hans fyrir þann tíma er að stórum hluta glatað, fyrir utan tímabilið sem hann vann með Óskari Gíslasyni, en það safn er einnig varðveitt hér á safninu,“ segir Gísli. „Og óhætt er að segja að myndefnið sé afar fjölbreytt, enda virðist Vignir hafa tekið að sér öll verkefni sem voru í boði; tók portrettmyndir af fólki, myndaði brúðkaup, skírnir, afmæli einstaklinga og fyrirtækja. Þá myndaði Vignir mikið fyrir Reykjavíkurborg, ýmsar framkvæmdir, fyrirtæki í borginni og skólastarf. Þetta eru algjörlega magnaðar heimildir,“ bætir Gísli við.

Magnaðar myndir

Að sögn Gísla má skipta sýningunni í fjóra hluta: „Stærsti hluti salarins fer undir ríflega 100 nýjar stækkanir sem ljósmyndarinn okkar, Sigríður Kristín, prentaði út. Þar eru margar magnaðar myndir allt frá einstaklingsportrettum upp í stórviðburði í Íslandssögunni, eins og hernám Breta 1940 og lýðveldisstofnunin 1944. Þá fá atvinnulífsmyndir einnig gott pláss á sýningunni. Síðan verðum við með rými sem er helgað orginal ljósmyndum eftir Vignir, meðal annars má þar sjá handlitaðar myndir og portrett, að meginhluta eldra efni en nýju stækkanirnar.

Í myrkvuðum Kubbnum verður svo myndvarpssýning þar sem við fjöllun nánar um nokkrar myndir eða myndasyrpur. Þar verður meðal annars fjallað í stuttu máli um braggahverfi í Reykjavík, Tívolí, innréttingar, gæsluvelli, handlitaðar myndir og fleira.

Síðan var Vignir leikhúsljósmyndari til margra ára og myndaði meðal annars fyrir Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið. Myndir sem meðal annars voru notaðar í sýningaskrár og birtust sem kynningarmyndir í dagblöðum. Þeim hluta ferilsins gerum við skil með því að láta um 400 leikhúsmyndir rúlla á flatskjá.“

Sýningin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Tryggvagötu er opin alla daga og stendur til og með 19. september á þessu ári.

Verkamenn við vinnu í Malbikunarstöð Reykjavíkur.
Vignir. Myndin er tekin árið 1955. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur