Útgáfu plötunnar Hasarlífstíll verður fagnað í kvöld klukkan átta á Kex Hostel við Skúlagötu 28 í Reykjavík. Hasarlífstíll kom út þann 10. ágúst og er fyrsta sólóplata Arnar Freys Frostasonar, eða Arnars sem kenndur er við hljómsveitina Úlf Úlf. Þar mun Arnar Úlfur stíga á stokk ásamt góðum gestum, þar má nefna Jóapé & Króla, Sölku Sól, Huginn og fleiri.

Þá mun Helgi Sæmundur hinn Úlfurinn í dúóinu einnig koma fram og þeir félagar taka nokkur vel valin lög áður en þeir skála í síðasta sinn í bili. Snemma í fyrramálið heldur Helgi til Bandaríkjanna þar sem hann ætlar að verja næstu mánuðum.

Aðdáendur Úlfanna þurfa þó ekki að örvænta þar sem þeir eru hvergi af baki dottnir, hljómsveitin fer aðeins í stutta pásu en svo koma þeir félagar sterkir til baka á Iceland Airwaves í nóvember.

„Þetta er bolti sem mun rúlla þar til við deyjum,“ segir Arnar Úlfur um hljómsveitina í samtali við Fréttablaðið.

Enginn tími til að efast um neitt

Aðspurður um plötuna segir Arnar að hún hafi upprunalega aldrei átt að verða formleg plata, heldur hafi hann viljað ögra sjálfum sér með því að vinna lögin hratt og þannig gæfist aldrei tími til að efast.

„Þetta er svolítið ólíkt Úlf Úlf plötunum, það er meira af gríni og glens. Ég lagði upp með að láta allt gossa. Þetta er kannski meira hrein og bein rappplata. Ég rumpaði þessu af á mjög hratt og gaf mér engan tíma til þess að efast um neitt. Þetta er bara ég að láta hlutina gossa, ég leyfði hugsunum mínum bara að flæða, svolítið eins og að skrúfa frá krana.“

Um hvað er Arnar Úlfur aðallega að hugsa?

„Hvernig það er að vera til á Íslandi og þessa togstreitu að dýrka að vera hérna af því að við höfum það svo gott en að langa samt í burtu í smá sól. Svo er platan óhjákvæmilega um það að eldast líka,“ segir hann sposkur og heldur áfram; „Mig langaði svolítið til þess að gefa út sólóplötu til þess að það yrði auðveldara að gefa út stök lög eða litlar EP plötur. Áður en ég gaf út plötuna þá fannst mér skrítið að fara að gefa út eitt lag þar sem það var ekkert til að bakka það upp, en núna finnst mér ég hafa meira frelsi til að láta eins og ég vill, flippa, sprella og vera ekkert að spá of mikið í neinu.“

Platan inniheldur átta lög og kom aðeins út á rafrænu formi, Björn Valur vann plötuna með Arnari ásamt fleiri vel völdum aðilum.

„Salka konan mín kemur fram á plötunni og á tónleikunum í kvöld, Helgi, Köttgrá Pjé og svo fékk ég líka uppáhalds norska rapparann minn með mér í för hann Kjartan Lauritzen en hann verður ekki með í kvöld og ekki heldur Köttur, því miður,“ segir Arnar loks og lofar góðri skemmtun í kvöld.