Meðlimir konunglega G&T klúbbsins í Reykjavík skáluðu í kampavíni í tilefni af brúðkaupi Meghan Markle og Harry prins sem fór fram í Windsor á Englandi í dag.

Yfirhirðdama klúbbsins, Anna Þóra Björnsdóttir, er aldeilis ekki ókunnug heldri manna siðum og venjum og myndi teljast frekar „royal“ að eigin sögn og því ekki að undra að hún sé gestgjafi í konunglegu boði í Reykjavík. 

„Ég ólst upp við þetta, mamma gekk á sínum tíma í kvennaskóla á Englandi svokallaður Finishing school og pabbi stundaði nám við konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Þau þekktu því bæði siði og venjur efri stétta og viðhéldu þeim alla ævi. Konungleg brúðkaup eru alltaf tilefni til að fagna, við mamma horfðum á brúðkaup Vilhjálms og Katrínar á sínum tíma og skáluðum þá í sérrí en mamma var þá komin á hjúkrunarheimili“

Vinkonur Önnu Þóru eru greinilega sama sinnis og töldu það ekki eftir sér að mæta snemma í morgun og skála í kampavíni og gæða sér að ljúffengum snittum á meðan fylgst var með konunglegu brúðkaupi á sjónvarpsskjánum.

„Við erum sammála um það að athöfnin í dag var meiriháttar, látlaus og persónuleg og sjálf skynjaði ég áhrif Díönu prinsessu mjög sterkt. Ég man enn svo vel hvar ég var þegar að hún dó og svo missti ég bróður minn mánuði síðar, þetta ár 1997 situr fast í minningunni. Ég sá að Harry var að hugsa til mömmu sinnar í dag, ég held að allir hafi skynjað það.“

Það er mál manna að brúðkaupið í dag hafi verið ólíkt hefðbundnum konunglegum hjónavígslum fram til þessa og er af ýmsu að taka í því samhengi.

„Hún Meghan var yndisleg, kjólinn var dásamlegur, einfaldur og fór henni virkilega vel. Og svo hefur þetta ekki verið auðvelt fyrir hana þetta með pabba hennar og það allt. Hún fær alveg tíu stig fyrir að leyfa Karli tengdapabba að leiða sig upp að altarinu, hann var ekki með neitt skilgreint hlutverk hvort sem var þannig að þetta gekk allt upp. 

En Camilla var kjánaleg þegar hún var að fletta í dagskránni að kíkja á hvað væri næst, virkaði verulega óörugg.“

Hefðardömurnar í konunglega G&T félaginu eru staðráðnar í því að fagna sem mest, nóg er til af kampavíni fyrir þá sem vilja en þær halda fast í hefðirnar, en ekki hvað, og hafa skenkt sér gin og tónik í glas og hyggjast ræða konungleg málefni fram eftir kvöldi.  Þeirra skál.