Bassasöngvararnir Kristinn Sigmundsson, Viðar Gunnarsson og Bjarni Thor Kristinsson halda tónleika í Salnum í Kópavogi, sunnudaginn 27. september klukkan 16.00. Helga Bryndís Magnúsdóttir er undirleikari. Tónleikarnir verða síðan í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 4. október og í Hofi á Akureyri sunnudaginn 11. október. Á efnisskránni eru íslensk sönglög og óperuaríur.

„Eitthvað verður maður að gera þannig að mér datt í hug að halda þriggja bassa konsert. Svo hringdi ég í bestu bassa sem ég þekki á landinu og hér erum við. Helga Bryndís, sem er mikill snillingur, spilar svo á píanóið,“ segir Kristinn.

Um efnisskrána segir hann: „Fyrri hluti efnisskrárinnar samanstendur af íslenskum sönglögum. Hver um sig syngur tvö lög og nokkur syngjum við saman. Í seinni hlutanum eru óperuaríur, tvær aríur á mann. Svo eru sprell og skemmtilegheit þarna á milli.“

„Við förum yfir breitt svið í óperusögunni. Ekkert tónskáld kemur oftar en einu sinni. Þarna eru Verdi, Wagner, Mozart, Beethoven og Otto Nicolai,“ segir Viðar. „Þótt við höfum verið að syngja sömu rullur á óperusviðinu þá endurspeglast það ekki endilega á þessum tónleikum. Ég man eftir að hafa farið á óperusýningu í Köln og þar heyrði ég Kristin syngja Banco í Macbeth eftir Verdi. Hann syngur ekki aríu úr þeirri óperu í þetta sinn heldur ég.“

„Við völdum þau lög sem við vildum syngja og það var auðvelt. Engar tvær bassaraddir eru eins og persónuleikarnir eru einnig mismunandi þannig að þetta verður fjölbreytt og skemmtilegt. Allavega erum við ákveðnir í að skemmta okkur,“ segir Kristinn.

„Sem ungi bassinn í hópnum get ég sagt að hér sé draumur að rætast því ég fæ að syngja með þessum tveimur bössum sem voru orðnar stjörnur þegar ég var að byrja í bransanum,“ segir Bjarni Thor.