Fjallabræður ákváðu að skella í 15 ára afmælistónleika en aldrei áður í sögu hljómsveitarinnar hafa verið haldnir sérstakir afmælistónleikar. Halldór Gunnar Pálsson, kórstjóri Fjallabræðra, lofar stuði og stemningu á tónleikunum, sem uppselt er á.

„Það er svona smá á reiki hjá okkur hversu gömul hljómsveitin er. Ég er fæddur árið 1981 og í 25 ára afmæli mínu urðu Fjallabræður til óformlega. Við hljótum því að vera á 16. ári. Við höfum aldrei haldið upp á afmæli svo við erum eiginlega að halda upp á öll afmælin með þessum tónleikum,“ segir Halldór Gunnar.

Spurður hvort meðlimir séu ekki spenntir fyrir „gigginu“ segir Halldór:

„Jú, heldur betur. Það er leiðinlegt að nota þetta orð, Covid, en það gerði okkur erfitt fyrir enda um stóran kór að ræða. Við vorum bara slakir í gegnum þann tíma en núna að vera koma aftur saman til þess að gera eitthvað svona skemmtilegt, það er alveg geggjað. Ég var að reikna þetta saman að ég er búinn að mæta á kóræfingar á þriðjudögum í 15 ár. Þá er það orðin mikil festa í lífinu ef maður hittir sama mannskapinn alltaf einu sinni í viku. Það er svo gaman þegar þetta byrjar aftur. Við nærumst hverjir af öðrum,“ segir fyrirliði Fjallabræðra.

Halldór segir að tónleikagestir viti ekki hvað er að fara að gerast á afmælistónleikunum í kvöld.

„Hver veit nema óvæntir atburðir eigi sér stað,“ segir Halldór og hlær. „Við munum stikla á stóru í því sem við höfum gert í gegnum tíðina. Við höfum verið að vinna í nýju efni líka í gegnum alheimsfaraldurinn þegar við höfum náð að hittast. Við ætlum að líta til baka, dvelja í núinu og horfa til framtíðar,“ segir Halldór Gunnar.

Halldór Gunnar Pálsson er kórstjóri Fjallabræðra.

Örugglega eina konan í karlakór

Halldór reiknar með að 63 meðlimir muni troða upp í Háskólabíó á tónleikunum og þar af ein kona.

„Eðli málsins samkvæmt þá verða alltaf einhverjar breytingar á hópnum. Það koma tímabil sem menn detta út en svo koma þeir aftur inn. Kjarni hópsins hefur haldið sér frá fyrsta „giggi“. En eins og ég hef sagt við menn að ef þeir komast ekki þar sem þeir eru að fara að gera eitthvað annað þá geta þeir komið aftur þegar þeir eru klárir. Það er ein kona í hópnum, Unnur Birna Björnsdóttir, sem er fiðluleikarinn okkar. Hún er búin að vera með okkur nær allan tímann og er örugglega eina konan sem er í karlakór. En við erum samt eiginlega hljómsveit frekar en kór og við viljum skilgreina okkur sem hljómsveit. Það eru rosalega margir söngvarar í henni.“

Um aldursbilið í hljómsveitinni segir Halldór:

„Það eldist með okkur,“ segir Halldór og skellir upp úr að hlátri. „Elsti heiðursfélaginn okkar er fæddur 1934 en það er afi minn. Hann var með okkur í hljómsveitinni til að byrja með og söng inn á eina plötu með okkur. Hann mætir að sjálfsögðu á tónleikana. Þeir yngstu eru fæddir upp úr 1980-1990. Hann er ansi breiður aldurshópurinn. Ég man þegar við vorum að byrja þá voru menn í kórnum sem voru á fermingaraldrinum en núna eru þeir orðnir fullorðnir menn. Þetta eru nokkrar kynslóðir sem mætast. Þetta er fallegur félagsskapur. Við höfum brallað margt saman í gegnum tíðina, gert plötur, farið erlendis og djöflast saman í hinu og þessu.“