Heiðrún er búsett í Kópavogi en vinkona hennar, Olga Marta Einarsdóttir, býr á Einarsstöðum í Reykjadal þar sem hún er sauðfjárbóndi og hestakona. „Við höfum lengi þekkst og í vor fékk ég meðal annars að taka sauðburðarvaktir hjá henni í sveitinni. Við höfum oft farið saman í göngur, en í haust fór Olga í úrvinnslusóttkví og þá kom upp sú hugmynd að við myndum ganga hvor sína leiðina en tala saman í síma á meðan. Við höfum haldið þessu áfram og eigum stefnumót alla mánudagsmorgna, ég í Kópavogi og hún Reykjadal. Við ákváðum að „hittast“ fyrir hádegi svo við getum nýtt birtuna. Þetta fyrirkomulag hvetur mig til að fara út að hreyfa mig, því ég vil ekki skrópa og láta Olgu ganga eina,“ segir Heiðrún glaðlega.

Á Snæfellsjökli í maí. „Ég gekk á jökulinn með Fyrsta skrefinu, en hitti sveitunga út Reykjadalnum í Þingeyjarsveit á toppnum, sem voru þar með öðrum hópi,“ segir Heiðrún glöð í bragði eftir útiveruna á jöklinum.

Þær eru báðar með þráðlaus heyrnartól en gæta fyllsta öryggis, eins og að hlusta eftir umhverfishljóðum. „Við förum gjarnan í stafagöngu og göngurnar eru yfirleitt í lengri kantinum, enda líður tíminn fljótt í góðum félagsskap. Það er líka öðruvísi að tala saman í síma á göngu en heima við eldhúsborðið,“ segir Heiðrún, sem telur þetta tilvalda leið til að halda góðu sambandi við vini og ættingja, nú þegar allir þurfa að leggjast á eitt til að kveða niður kórónaveirufaraldurinn og fáir mega hittast.

„Ég held utan um gönguferðirnar með Strava-appinu, en þá sé ég bæði hvað þær eru langar og hversu hratt ég geng. Það er hvetjandi að sjá árangurinn,“ segir Heiðrún.

Þegar hún er spurð um skemmtilegar gönguleiðir segist hún helst ganga um Fossvogsdalinn, Elliðárdalinn eða nokkra hringi í kringum Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði. „Ég er líka í nokkrum gönguhópum en þeir eru allir í fríi núna út af COVID-19. Með þeim fer ég á fjöll og í vor gekk ég á Snæfellsjökul,“ upplýsir Heiðrún.

Heiðrún er mikil sjósundkona og synti í Skjálfandaflóa í sumar. Hér er hún í fjörunni við Saltvík. MYNDIR/AÐSENDAR

Gleðin í sjónum

Heiðrún stundar einnig sjósund af miklum krafti sér til heilsubótar. „Fyrir sex árum var ég búin að eiga við heilsuleysi að stríða. Um það leyti byrjaði ég að ganga með Veseni og vergangi til styrkja mig og fá betra úthald. Þar kynntist ég fólki sem setti mig inn í sjósundið. Sem krakki hafði ég leikið mér að því að synda í Reykjadalsánni, en ég ólst upp á Laugum í Þingeyjarsveit. Á menntaskólaárunum fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna og synti í vötnum í Klettafjöllunum. Ég hafði samt ekki hug á að prófa sjósund og það tók mig meira en tvo mánuði að undirbúa mig andlega fyrir fyrstu sundtökin,“ segir Heiðrún.

Eftir fyrstu sjósundferðina varð ekki aftur snúið og á afrekslistanum eru meðal annars sundferðir út í Viðey og til baka og Helgusund í Hvalfirði. Í fyrravor þreyttu Heiðrún og Magnea Hilmarsdóttir svokallað Alcatraz-sund, fyrstar íslenskra kvenna, en þær syntu um tveggja kílómetra leið í land frá fangelsiseyjunni Alcatraz, utan við San Fransiscó í Kaliforníu. „Ég var í stjórn Sjór og tók þátt í að skipuleggja viðburði í sjósundinu en vegna COVID-19 er það allt í pásu. Við Sigrún Þ. Geirsdóttir, sem hefur t.d. synt yfir Ermarsundið, höfum haldið sjósundnámskeið fyrir hópa undir nafninu Gleðin í sjónum. Við vorum meðal annars í samstarfi við Fyrsta skrefið hjá Ferðafélagi Íslands og fylgdum fólki í sjósund, það er leiðbeindum og vorum því til halds og trausts. Það er mikil gleði að fara í sjóinn og gott fyrir líkama og sál. Auk þess gerir sjósundið fjallgöngurnar auðveldari,“ segir Heiðrún, sem býður upp á einstaklingfylgd í sjósund þar sem fyllstu sóttvarna og reglunni um tveggja metra fjarlægð er fylgt. Hún vonast til að þær Sigrún geti haldið áfram með sjósundnámskeið fyrir hópa með vorinu. „Ég hlakka til, enda er svo gaman og gefandi að sjá fólk ná því að leggjast til sunds. Það gefur fólki svo mikið og gleðin sem fólk upplifir er stórmögnuð.“