Skáldleg afbrotafræði

Einar Már Guðmundsson

Fjöldi síðna: 232 bls.

Útgefandi: Mál og menning

Löngum er snúið að ræða um bækur sem eru hluti af stærra ritverki eins og þessi. Önnur bók er boðuð í sögulok og mun halda áfram þar sem þessari sleppir. Margar persónur eru nefndar til leiks og ljóst að sumar þeirra verða áfram í aðalhlutverki en aðrar fyrst og fremst þáttur í aldarfarslýsingu sem að einhverju leyti skýrir þá atburði sem sagt er frá og boðaðir eru í þessari bók.

Sögumaðurinn sem Einar hefur samið inn í bók sína er af því tagi sem kallast alvitur sögumaður, þekkir drauma og hvatir persóna þegar honum býður svo við að horfa og veit það sem honum sýnist. Hann notar oftast eintölu þegar hann segir frá sjónarmiðum sínum en einnig bregður nokkuð oft fyrir því sem á sumum tungumálum er kallað „konungleg fleirtala“.

Í slíkum tilvikum segir sögumaðurinn „við“ og er líklega að vísa til sín og lesenda, rétt eins og þegar konungur talar fyrir sinn munn og þegnanna. „Vér einir vitum“ kallast frægt ávarp Danakonungs á 19. öld og „oss er ekki skemmt“ sagði Viktoría Englandsdrottning þegar menn gættu ekki tungu sinnar. Þó að sögumaður virðist alvitur og geti þannig séð sagt frá öllu sem hann kærir sig um vitnar hann samt oft í sögusagnir, ónefnda heimildarmenn og óljós rit.
Sterkasta þemað í skáldlegri afbrotafræði Einars Más Guðmundssonar virðist vera spurningin um það hvort yfirvöld og dómarar séu eitthvað skárri en glæpamennirnir sem þeir dæma.

Hinir títtnefndu áratugir í lok 18. aldar og við upphaf þeirrar 19. eru tíminn sem sagt er frá. Fátækt var þá mikil í landinu og örvænting bæði hjá lágum stéttum og háum.

Utan úr heimi komu fregnir um blóðug átök og upp gaus sá kvittur að höfuð yfirstéttarinnar gætu losnað frá bolnum, rétt eins og alþýðuhausarnir. Um þetta tímabil hafa margir skrifað.

Í frásögn Einars má sjá tilhneigingu til þess að segja sögu þessara ára með aðferðum töfraraunsæis og í íslenskri þjóðtrú eru ýmis efni til þess.

Í íslenskri þjóðtrú og þjóðsögum er líka opin gátt milli draums og veruleika en þann stíl þarf að umgangast með varfærni. Það er ekki gott að vinna úr of þekktum sögum og sögnum en þess eru dæmi í bókinni. Það getur orðið svolítið einkennilegt í íslenskum augum en þessi bók verður gefin út samtímis á Íslandi og í Danmörku og gengur sennilega betur þar. n

Niðurstaða:

Þetta er frásögn af átakaskeiði í íslenskri sögu. Hún er nokkuð laus í reipunum. Ég hef lesið betri bækur eftir Einar Má Guðmundsson og ætlast til mikils af honum. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar því von er á framhaldi.