Stefán Gunnlaugur Jónsson og Kristjana Björk Barðdal hafa haldið úti UT hlaðvarpinu Ský síðan UTmessan var haldin 2021 en þar spjalla þau við alls konar fólk sem tengist upplýsingatækni á einn eða annan hátt.

„Fyrir UTmessuna 2021kom upp sú hugmynd að halda úti hlaðvarpi samhliða messunni þar sem hún fór fram rafrænt,“ segir Kristjana. „Ætli Covid hafi ekki spilað þar eitthvað inn í og þörfin til að finna nýjar leiðir til að miðla upplýsingatækniboðskapnum.“

Stjórn Ský velti hugmyndinni að hlaðvarpi upp og Kristjana vissi að Stefán hefði svona líka brennandi áhuga á tækni og reynslu af því að halda úti hlaðvarpi. „Ég hafði stýrt hlaðvarpinu Ekkert að frétta í rúmt ár á þessum tíma,“ segir Stefán. „Við slógum þá bæði til og negldum niður formið á þáttunum. Þar sem Ský er ekki rekið í hagnaðarskyni heldur einungis til þess að miðla þekkingu og auka áhuga á upplýsingatæknigeiranum, fannst okkur þetta frábært tækifæri til að blaðra um tækni án þess að vera að auglýsa einhverjar vörur. Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský, hefur verið mjög hvetjandi í gegnum allt ferlið.“

Aðspurð um helstu fyrirmyndir segja þau ógrynni áhugaverðra hlaðvarpa svífa um í kosmósinu. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Fjölbreyttur bakgrunnur

Kristjana er tölvunarfræði- og verkfræði menntuð. „Ég starfa sem framleiðandi í stafrænni umbreytingu hjá Reykjavíkurborg ásamt því að sitja í stjórn Ský, en Ský eru félagasamtökin sem standa fyrir UTmessunni. Þar sem ég starfa í hugbúnaðarþróun er virkilega heppilegt að geta nördast ennþá meira í allskonar hlutum tengdum tækni í hlaðvarpinu.“ Stefán segist lýsa Kristjönu oft sem drifkraftur holdi klædd. „Hún hefur setið í stjórnum þúsund félaga og eins og stormurinn sem Hannes Hafstein skrifaði um þá neistann upp blæs hún og bálar upp loga og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.“

Sjálfur er Stefán menntaður hugbúnaðarverkfræðingur og gagnafræðingur og vinn við rannsóknir hjá Háskólanum í Reykjavík í máltækni og gagnagreiningum. „Ég hef samt mest gaman af því að skapa, hvort sem það er að teikna, skrifa, forrita eða blaðra í hljóðnema. Annað áhugamál er að fylgjast með tæknigeiranum og sjá framfarirnar sem eiga sér stað þar. En ef það ætti að lýsa okkur báðum í stuttu máli er kannski einfaldast að segja að við séum bæði forvitin og athyglissjúk.“

Velja skemmtileg verkefni

Aðspurð um helstu markmiðin með hlaðvarpinu segja þau að á mjög sjálfhverfan hátt hafi helstu markmiðin verið þau að hafa gaman og tala við áhugavert fólk um viðfangsefni sem þau eru sérfræðingar í. „Við búum við þá gríðarlegu forréttindastöðu að fá að velja þau verkefni sem við höfum gaman af og erum þakklát fyrir það á hverjum degi,“ segir Kristján. „Okkur finnst báðum gaman að miðla upplýsingum og þekkingu og eigum það bæði til að tala og tala endalaust. Með þessu hlaðvarpi þá reynum við samt að hlusta og komast að því áhugaverða sem viðmælandinn hefur að segja,“ bætir Stefán við.

Snerta á fjölbreyttum efnum

Í þáttunum hafa þau lagt sig fram við að snerta á fjölbreyttum efnum innan tæknigeirans en ræða um það á nótum sem flest fólk getur skilið. „Stundum viljum við fjalla um spennandi fyrirtæki og fáum þá fólk frá þeim til að ræða við okkur. Oft reynum við að velja umræðuefni í tæknigeiranum, eins og tölvuöryggi, og fáum þá sérfræðinga tengdu því til að spjalla við okkur,“ segir Stefán.

„Við höfum líka fengið til okkar áhugavert fólk sem er að gera skemmtilega hluti í tæknigeiranum og fáum að heyra bakgrunn þeirra og sögu,“ bætir Kristjana við. „Nýlega héldum við þrjár spurningakeppnir milli þeirra fyritækja sem voru tilnefnd til UT-verðlaunanna 2022. Það voru mjög skemmtilegir þættir sem við kölluðum UT-svarið og neyddum alla til að kalla okkur Sigmar og Þóru í tvær vikur. Undantekningarlaust er okkur mætt af mikilli gjafmildi viðmælenda sem eru tilbúin að fórna tíma sínum til að tala við tvo vitleysinga um mikilvæg mál. Við erum viðmælendum mjög þakklát.“

„Okkur finnst báðum gaman að miðla upplýsingum og þekkingu og eigum það bæði til að tala og tala endalaust,“ segja þau Stefán og Kristjana. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Ýmsar fyrirmyndir

Aðspurð um helstu fyrirmyndir segja þau ógrynni áhugaverðra hlaðvarpa svífa um í kosmósinu. „En af þeim öllum hefur hlaðvarpið sem Lex Friedman heldur úti verið mikil gjöf. Hann er ungur gervigreindar rannsakandi og fyrirlesari hjá MIT í Bandaríkjunum. Í þáttunum ræðir hann við fjölbreytta flóru mikils metins fólks um oft flókin mál eins og tækni, stærðfræði, sögu, heimspeki og list. Hlaðvarpið Built for Change hefur líka oft verið kveikja að skemmtilegum umræðuefnum.“

Léttir og innihaldsríkir þættir

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að þeirra sögn. „Öll viðbrögð sem okkur hafa borist hafa verið mjög jákvæð,“ segir Stefán. „Það þarf engan að undra að hugmyndin um þessa þætti hljómi smá fráhrindandi fyrir fólk sem gefur sig ekki út fyrir að vera „tæknimanneskjur“. Við leggjum okkur samt fram við að gera þættina aðgengilega fyrir alla hlustendur, óháð bakgrunni, að þeir séu léttir og innihaldsríkir.“ Kristjana segir vissulega rými fyrir fleiri hlustanir en það skrifast sennilega á það að fáir vita af tilvist þessara þátta. „En nú veist þú af þeim kæri lesandi, þú veist af þeim og þig langar að hlusta á þá.“

Hægt er að hlusta á UT hlaðvarpið Ský inn á Spotify, Apple podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum undir nafninu UT hlaðvarp Ský.

Líf og fjör fram undan

Fram undan eru ýmis spennandi verkefni hjá þeim auk fleiri hlaðvarpsþátta. „Við munum halda ótröð áfram með hlaðvarpið sem kemur út í syrpum. Eins og stendur erum við að vinna að gerð næstu þáttaraðar. Hún verður meira krassandi og dramatískari en nokkru sinni fyrr,“ segir Kristjana.

Hún er auk þess að skrifa meistararitgerðina sína um stafræna umbreytingu og þar með að ljúka meistaranámi í iðnaðarverkfræði. „Annars verð ég sem stjórnarmeðlimur í Ský hluti af skipulagsteymi UTmessunnar 2023 sem ég lofa að verði allra besta UTmessa hingað til.“

Stefán heldur áfram með hlaðvarpið Ekkert að frétta, sem er að færast upp í fámennan hóp íslenskra hlaðvarpa sem inniheldur yfir 100 þætti. „Þetta hlaðvarp byrjaði sem eins konar dagbók hjá mér og vinum mínum, Guðmundi Orra og Arngrími, þegar vorum í námi í gagnavísindum í Hollandi. Við settum það í loftið svo vinir og vandamenn gætu fylgst með daglegu lífi okkar.“

Utan þess heldur Stefán áfram miðla tækniboðskapnum, hvort sem það er í fyrirlestrum eða hlaðvörpum um ókomna tíð. „Áhugasamir geta einnig séð mig á spunasýningum með æfingarhópi Improv Ísland í Þjóðleikhúskjallaranum einu sinni í mánuði í vetur. Þar sýni ég spuna með virkilega hæfileikaríku fólki.“