Það var svo í byrjun Covid í fyrra að ein í vinnunni bauð í rosa fjallaferð á Úlfarsfellið eftir vinnu. „Að sjálfsögðu sló ég til og skellti mér með. Síðan þá var ekki aftur snúið hjá mér. Ætli það hafi svo ekki verið Sandra vinkona mín sem kom mér endanlega á bragðið. Hún sagði mér einn daginn að hún væri að fara á Snæfellsjökul og spurði hvort að ég kæmi ekki með. Ég var nýbúin að lofa sjálfri mér því að segja já við öllu sem kæmi upp og lifa svolítið villt, og sagði „já, hví ekki?“. Við tóku nokkrar vikur af „hvað í fjandanum var ég að hugsa?“ en ætli þetta hafi ekki kveikt neistann, því eftir mjög erfiða göngu (að mér fannst) var loksins toppað í miðnætursól. Það var svo geggjað og algerlega þess virði. Svona getur maður verið blindur á hvað þetta hefur upp á að bjóða, og ertu að grínast hvað við eigum fallegt land?“ segir Marta.

Sálfræðitími

Marta hefur gengið á fjöll allt síðasta ár. „Þetta er allt annað að ganga á sumri eða vetri en bæði er mjög skemmtilegt. Það þarf þó alltaf að fylgjast vel með veðri og það er aðeins meira á veturna sem það þarf að fresta ferðum. Ég er í dag meðlimur í fjallgönguhóp sem heitir Toppfarar og er 14 ára gamall klúbbur með yfir 100 félaga.“

Aðspurð hvað það er sem heilli svo við fjallgöngur svarar Marta að þetta sé eins og margra klukkustunda sálfræðitími. „Þetta er svo hreinsandi og heilandi. Þegar ég er í göngu þá hugsa ég ekki um neitt annað, gleymi bara raunveruleikanum sem er þarna fyrir utan og er bara að njóta og vera þakklát. Það má ekki gleyma því að njóta þess að vera á fjalli. Oft eru göngur krefjandi og erfiðar, þá verður maður að hugsa um verðlaunin, sem eru að ná að toppnum og geggjaður nætursvefn eftir allt súrefnið.“

Áttu þér uppáhaldsfjall, hér á Íslandi eða annars staðar?

„Ég á í frábæru ástar-haturssambandi við Esjuna. Hún er mjög krefjandi en líka ótrúlega falleg og það er svo mikið hægt að ganga á henni. Svo er ég með Helgafell í Hafnarfirði í bakgarðinum hjá mér svo það er alltaf svona pínu mitt.“

Hér er Marta í göngu á Fimmvörðuhálsi.
Mynd/Aðsend.

Alger bilun að bíða

Marta segist ekki hafa tölu á því hvað hún hefur toppað marga tinda síðastliðið ár, en fjöllin eru mjög mörg. Mesti afrekstindurinn segir hún þó að hafi verið Vestari Hnappur í Öræfajökli. „Hann fór ég núna í byrjun maí og maður minn hvað ég var stolt af sjálfri mér. Þetta var alvöru jöklaferð, allir í línu og á broddum með hjálm og öxi. Það var gengið yfir sprungusvæði og klifrað á toppinn. Ég man að ég var að rökræða við sjálfa mig hvort ég ætti nú ekki bara að bíða niðri á meðan hinir klifruðu á toppinn þegar ég heyrði einn segja það upphátt að hann ætlaði að bíða. Þá var ég fljót að skipta um skoðun og hugsaði „já, nei, það er bilun að bíða“ og skellti mér upp á topp.“

Næst á dagskrá segir Marta að sé Vatnaleiðin núna um helgina. „Það eru mögulega ekki háir tindar þar á ferð, en þetta er löng ganga sem reynir á úthald, bæði líkamlega og andlega. Svo verður líklega ein Helgafellsferð fyrir þá göngu.“

En er einhver tindur sem þig dreymir um að sigra?

„Er það ekki þetta klassíska: Hvannadalshnjúkur? Svo langar mig á Sveinstind og Kerlingu, sem er hæst á Tröllaskaga.“

Lumarðu á einhverjum góðum ráðum handa þeim sem langar að rífa sig upp á tind um helgina?

„Ég mæli bara með því að skunda af stað, kannski ekki í gallabuxum og lélegum götuskóm eins og ég gerði í minni fyrstu fjallgöngu. Úlfarsfell er flottur byrjunarreitur og býður upp á margar leiðir til að komast upp. Það sem ég mæli með að fólk útvegi sér eru góðir gönguskór númer 1, 2 og 3, og góð gönguföt. Og ekki gleyma að klæða sig eftir veðri.“