Sýningin er í fimm sölum Listasafnsins á Akureyri og gefur mynd af hinum víðförla Erró. „Danielle Kvaran, sýningarstjóri og sérfræðingur í Erró, kom með þá tillögu að gaman væri að sýna þær myndir sem tengjast ferðalögum hans og þær eru fjölmargar,“ segir Hlynur Hallsson safnstjóri.

Verkin, sem eru öll í eigu Listasafns Reykjavíkur, eru frá ýmsum tímabilum, elsta verkið er frá árinu 1963 og það yngsta frá 2010. Á myndunum má sjá flugvélar, bíla, lestir, hesta og geimskip, og einnig fljúgandi ofurhetjur sem fara víða. Sýningunni er skipt eftir sölum.

„Þetta er í þriðja skiptið sem við setjum upp Erró-sýningu í safninu og þetta er stærsta sýningin. Í fyrsta salnum ægir saman alls kyns myndum en síðan tekur við ákveðin skipting. Á einum stað eru geimfaramyndir, Maó-myndir á öðrum, myndir af norðurafrískum konum á enn öðrum stað og tímalína og ljósmyndir á þeim fjórða,“ segir Hlynur.

Sýningin er í fimm sölum Listasafnsins á Akureyri.
Fréttablaðið/Auðunn

Himinlifandi nemendur

Hann segir sérstaka áherslu lagða á að kynna list Errós fyrir unglingum. „Erró á erindi við nýja kynslóð. Við höfum tekið eftir því að hann höfðar mjög til hóps sem erfitt er að fá í safnið, sem er unglingar. Börn elska að koma hingað en það er erfiðara að fá ungmennin í listasafn. Efri bekkir grunnskóla og nemendur í framhaldsskólum komu hingað í maí og voru himinlifandi og nú er verið að bóka heimsóknir fyrir ágúst og september.“

Hlynur segir gaman að fylgjast með viðbrögðum nemenda. „Þeir eru mjög áhugasamir og tengja vel við teiknimyndahetjurnar og geimfarana. Danielle setti upp tímalínu í tengslum við líf Errós sem unga fólkið hefur gaman af að skoða og setja í samhengi við tímann og ferðalögin í lífi Errós. Þau fengu sum smá sjokk þegar þau sáu myndir hans af berbrjósta konum, en það gaf okkur líka tækifæri til að ræða við þau um mismunandi menningarheima og hvað hlutir breytast hratt, það sem þykir sjálfsagt á einum tíma þykir undarlegt á öðrum.“

Ferðagarpurinn Erró stendur til 12. september.
Fréttablaðið/Auðunn

Verk í heimsreisu

Sýningin veitir innsýn í vinnuaðferðir Errós, en þar má sjá hlið við hlið frummyndir þar sem úrklippur eru áberandi og síðan lokaverkið, olíumálverk. „Photoshop er daglegt brauð í heimi ungu kynslóðarinnar, en það var ekki til þegar Erró var að gera mörg af þessum verkum. Hann er enn að klippa í höndunum og raða saman. Erró er ennþá að vinna af krafti og fer á vinnustofuna á hverjum degi. Ferill hans er einstakur og verkin má einnig tengja við ástandið í heiminum á hverjum tíma, stríð og vígbúnaðarkapphlaup en einnig forvitni okkar á tækni og nýjum hlutum,“ bendir Hlynur á og segist afar ánægður með sýninguna. „Þetta er litrík og fjörug sýning, björt og opin.“

Ferðagarpurinn Erró stendur til 12. september. Þess má geta að á næsta ári þegar Erró verður níræður munu mörg verkanna á sýningunni fara í heimsreisu á vegum Listasafns Reykjavíkur í tilefni afmælisins