Fólk hefur reynt að draga mig í þetta hlaðvarpsgeim í mörg ár, segir rapparinn og þjóðfélagsrýnirinn Erpur Eyvindarson sem stjórnar hlaðvarpsþættinum Slaki Babarinn.

Til að valda ólíkum fylgjendahópum sínum ekki vonbrigðum ákvað Erpur að þrískipta hlaðvarpinu efnislega. Liðirnir þrír verða Rauða myllan, Slönguspilið og Flórgoðinn.

Ekkert lúðasjitt

„Rauða myllan verður menningarumfjöllunin, þar sem verður tekin fyrir tónlist, textagerð, ljóð en líka afþreying, tölvuleikir, bíó og eiginlega allt sem ég nenni að tala um,“ segir Erpur. „Þetta verður aldrei neitt lúðasjitt, heldur alltaf fræðandi.“

Í Slönguspilinu verður pólitíkin alls ráðandi en þar verður líka stiklað á heimspeki og trúarbrögðum. Erpur segir myndmálið að baki heitinu vera ansi augljóst. „Þetta vísar í valdastrúktúrinn í heiminum. Það er ekkert nóg að kasta bara sex og fara sex áfram. Það eru alltaf einhverjir helvítis snákar og stigar sem rugla í hlutunum.“

Í síðasta dagskrárliðnum Flórgoðanum, verður svo syndin allsráðandi. „Flórgoðinn er ekki bara flottasti fugl Íslands, heldur unir hann sér líka í flórnum þar sem hann verpir og býr til hreiður. Hann er nefnilega goðinn í flórnum,“ segir Erpur og bætir við að öll gáfuðustu dýr jarðar geri tilgangslausa hluti. „Það verður áfengi, romm, vindlar, kynlíf og allt annað sem gáfuðustu dýrin gera í tilgangsleysi. Syndin verður allsráðandi.“

Fyrsti þáttur af Slaka Babarnum er nú þegar aðgengilegur á YouTube, en þar er listamaðurinn Hugleikur Dagsson gesturinn í Rauðu myllunni.

Ekkert nema kostir

Þótt Erpur sé hokinn af reynslu í alls konar þáttastjórnun, hefur hann tekið ástfóstri við hlaðvarpið sem miðil. „Ég sé ekkert nema kosti við þetta. Þetta getur verið eins langt og þér sýnist, og það eru engar auglýsingar eða lög sem að trufla flæðið.

Þegar maður er orðinn tuttugu og fimm ára eins og ég, þá er svo ofboðslega gaman að prófa eitthvað nýtt,“ segir Erpur, fjörutíu og tveggja ára.

Þrátt fyrir að hertar takmarkanir hafi komið sér illa fyrir tónlistarmenn landsins, hefur Erpur þó í nógu að snúast í rappinu. „Nýjasta rappbarnið mitt er hann Blaffi sem kemur frá Njarðlem, eða Njarðvík eins og hún heitir víst. Hann var að gefa út fyrsta lagið af plötunni sinni og ég tók þátt í að gera það með honum.“

Svo er Slaki Babarinn víst ekki einungis kenndur við hlaðvarpsþáttinn, en síðar í ágúst er von á samnefndu lagi frá Erpi. „Þetta verður fyrsta lagið mitt í einhver þrjú ár, en verðum bara að tala betur um það þegar nær dregur,“ segir hann kitlinn.