Hljóm­sveitar­með­limir CYBER, þær Jóhanna Rakel og Salka Vals­dóttir, greindu frá því í gær að hljóm­sveitin myndi styðja styrktar­söfnun Seyðis­fjarðar með ó­hefð­bundnum hætti, eða með því að selja nektar­myndir.

„Ég skal alltaf vera nakin fyrir ham­farir,“ segir Jóhanna á­kveðin í sam­tali við Frétta­blaðið. „Hvað sem ég get gert til að að­stoða er ég til í, og sé það með því tefla fram líkama mínum þá er ég alveg til í það,“ í­trekar söng­konan.

Saman fyrir Seyðis­fjörð er söfnun sem hrundið var af stað skömmu eftir að aur­skriður féllu á mið­bæ bæjarins í lok síðasta árs. Mark­miðið er að styrkja sam­fé­lagið og íbúa í upp­byggingu á svæðinu og hafa yfir 50 lista­menn heitið að­stoð sinni við söfnunina.

Erótísk listaverk í takmörkuðu upplagi

„Salka stakk upp á því að þetta yrði okkar fram­lag,“ segir Jóhanna. Hug­myndin er inn­blásin af fram­taki ástralskrar fyrir­sætu að nafni Kay­len Ward sem bauð upp á nektar­myndir af sér í skiptum fyrir fram­lög til styrktar gróður­eldunum í Ástralíu.

„Við hugsuðum líka að það yrði lík­lega ein­faldara að taka ljós­myndir en að koma sviðs­myndinni okkar á upp.“ Það verk­efni vatt hins vegar upp á sig og varð að­eins stærri fram­kvæmd en upp­haf­lega var talið. „Auð­vitað þurfti frá­bæran ljós­myndara, búninga og síðan nekt svo í raun var þetta alveg jafn mikill undir­búningur og hefði verið fyrir tón­leika.“

Ljós­myndarinn Sunna Ben tók myndirnar og eru þrjár ó­líkar myndir í boði í tak­mörkuðu upp­lagi. Að­eins tíu ein­tök af hverri mynd eru í boði og brýnir Jóhanna fyrir á­huga­sömum að að­eins sé hægt að festa kaup á erótísku lista­verki í þessari viku í gegnum Rauða Krossinn. Allur á­góði myndanna rennur til íbúa Seyðis­fjarðar.

Hljómsveitin Cyber deyr aldrei ráðalaus.

Áhyggjur af viðbrögðum fjölskyldunnar

Út­spil tví­eykisins hefur vakið tölu­verða at­hygli og vonast þær Salka og Jóhanna til þess að söfnunin beri til­ætlaðan árangur. Við­tökurnar hafa í það minnsta ekki látið á sér standa.

„Ég var orðin pínu stressuð þar sem ég er náttúru­lega með stór­fjöl­skyldu mína á sam­fé­lags­miðlum,“ út­skýrir Jóhanna. „Maður hefur oft gert tæpa hluti en að selja nektar­myndir er kannski það sem myndi loksins slá fjöl­skylduna alveg út af laginu.“

Myndirnar sem um ræðir eru þó einkar smekk­legar að mati Jóhönnu svo hún á­kvað að hafa ekki of miklar á­hyggjur. „Tengda­amma mín sendi mér síðan hjarta emoji svo ég held að ég sé alveg góð núna.“

Meiri­hluti þeirra sem fjár­fest hafa í verkunum eru Ís­lendingar en einnig hefur borið á á­huga er­lendis frá. „Það er ekki mjög mikið eftir og mögu­lega verður hægt að búast við því að sjá þessi verk uppi á ein­hverjum kaffi­húsum í Reykja­vík.“

Ljósmyndarinn Sunna Ben tryggði að myndatakan væri skemmtileg fyrir alla.
Mynd/Instagram

Kvenlægt sjónarhorn

Að­spurð hvort þetta sé góð leið til að styrkja góð­gerða­mál segir Jóhanna þetta ekki vera neitt verri að­ferð en aðra.

„Við á­kváðum að búa til þessar myndir og fylgja ekki karlæga sjónar­horninu sem ein­kennir oft svona erótík.“ Mikil­vægt var að finna kven­kyns ljós­myndara og öruggt um­hverfi.

„Það var mikil­vægt fyrir okkur að hafa ein­hverja konu sem við þekktum.“ Þannig varð stemmningin á setti stór­góð og allir skemmtu sér vel. „Það urðu til næstum því 200 myndir og við vorum nánast grenjandi að reyna að velja bara þrjár.“

Jóhanna og Salka vilja að fleiri fækki fötum fyrir góð málefni.

Bifreiðastæði óskakúnnar

Jóhanna segir tví­eykið vera mjög á­nægt með út­komuna. „Hún sýnir að það er líka hægt að gera eitt­hvað fal­legt og erótísk á smekk­legan hátt.“ Söng­konan hvetur vinnu­staði sem al­mennt hýsa erótískar myndir ein­dregið til að fjár­festa í myndunum.

„Það væri æði ef ein­hver bif­reiða­verk­stæði eða aðrir staðir hengja upp myndir af létt­klæddum konum myndu fjár­festa í svona mynd sem er bæði til styrktar góðs mál­efnis, og búin til af konum sem eru sjálfar við­fangs­efnið.“

Seint í rassinn gripið

Ekki væri heldur verra að mati Jóhönnu ef fleiri myndu tína af sér spjarirnar til styrktar góðu mál­efni. Þá sér­stak­lega þegar kemur að lofts­lags­málum þar sem má engan tíma missa.

„Þessar aur­skriður væru ekki að falla í þessu magni ef það væri ekki fyrir ham­fara­hlýnun,“ segir Jóhanna sem telur það ekki bestu leiðina að bíða eftir ham­förum til að bregðast við. „Kannski ætti ég að vera oftar nakin og reyna að fyrir­byggja að ham­far­hlýnun haldi á­fram að aukast.“ Aðrir mættu endi­lega leggja fram að­stoð sína í þeim efnum. „Það gæti verið flott for­varnar­starf.“