Erna Kristín Stefánsdóttir áhrifavaldur og guðfræðingur á von á tvíburum með eiginmanninum Bassa Ólafssyni. Von er á erfingjunum 23. maí, en þar sem tvíburar koma alltaf fyrr koma krílin líklega í kringum 12. apríl, segir Erna Kristín í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurð svarar Erna að hún sé búin að vera rosalega lasin á meðgöngunni, en finnur að hún sé loksins að ná sér núna.

Hún tilkynnti barnalánið á Instagram reikningi sínum í dag þar sem hún segir frá því hvernig lífið tekur oft óvænta stefnu.

„Lífið, eina sekúnduna veit ég ekkert hvert ég er að stefna. Hina ofplana ég lífið frá A til Ö til þess að sannfæra sjálfa mig um að allt sé að sigla í rétta átt. Þá þriðju kemur óvæntur glaðningur sem breytir öllum þessum plönum, lífið er óútreiknanlegur rússíbani og það er það sem gerir það svo skemmtilegt. Fjölskyldan stækkar og ekki bara um eitt heldur eru tvíburar á leiðinni,“ segir hún, en sé einnig enn að átta sig á tíðundunum, sem voru óvænt en afar velkomin.

Fyrir eiga þau tvö börn, Leon Bassa sjö ára og Önju sem er sextán ára sem Bassi á úr fyrra sambandi.

Erna gengur undir nafninu Ernuland á Instagram þar sem hún talar fyrir jákvæðri líkamsímynd og miðlar þar eigin reynslu um vanlíðan í eigin skinni.

Um 24 þúsund einstaklingar eru að fylgja henni á miðlinum.

Erna gaf út bókina Ég vel mig, sem fjallar um jákvæða líkamsímynd fyrir ungmenni og kennir þeim að þau og líkaminn þeirra séu nóg.