Íslensku jólasveinarnir, Grýla, Leppalúði og jólakötturinn eru til umfjöllunar erlendra fjölmiðla nú rétt fyrir jól. Íslensku jólahefðirnar virðast þykja nokkuð skrýtnar og jafnvel óhugnanlegar.
„Jólasveinarnir hafa ekki alltaf verið kátir [...] Þessar jólapersónur eiga hrollvekjandi sögu að baki,“ segir í grein Deseret News um tíu óvenjulegar jólahefðir víðs vegar úr heiminum.
The Guardian tekur sveinana einnig fyrir og þýðir lauslega nöfn þeirra flestra. „Þvörusleikir (spoon-licker), Pottaskefill (pot-scraper), Askasleikir (bowl-licker), Hurðaskellir (door-slammer), Skyrgámur (skyr yoghurt-gobbler), Bjúgnakrækir (steals sausages), Gluggagægir (window-peeker), Gáttaþefur (door-sniffer), Ketkrókur (meat hook) and Kertasníki (candle-beggar).“
Og þá taka aðrir miðlar jólaköttinn fyrir. „Ekki láta nafn jólakattarins plata þig – þessi íslenska þjóðsagnavera er enginn kettlingur sem þú ættir að hleypa inn til þín. Hann myndi ekki einu sinni komast inn.“ kemur fram í grein All Thats Interesting.
Vogue fjallar einnig um þessar ódauðlegu jólaverur Íslendinga í grein þar sem einblínt er á hefðir Norðurlandanna. Þar eru einnig aðrar hefðir teknar fyrir, eins og jólabókaflóðið.
„Það byrjar nokkrum vikum fyrir jól þegar hyllur bókabúða á Íslandi fyllast á meðan útgefendur keppast við að gefa út nýjar bækur innan þessa ákveðna þrönga tímaramma, og jólabókaflóðið byrjar.“ segir í Vogue.