Sú hefð hefur skapast að gestalistamenn, frá hinum ýmsu löndum, sem hafa dvalið í vinnustofum SÍM á Seljavegi og á Korpúlfsstöðum, sýni verk sín á árlegri sýningu í SÍM-salnum í Hafnarstræti. Slík sýning verður opnuð á morgun, laugardag, klukkan 17.00 og stendur til þriðjudags.

Martynas Petreikis hefur umsjón með sýningunni. „Í sautján ár hefur SÍM boðið gestalistamönnum að sýna verk sín í galleríinu hér í Hafnarstræti. Að þessu sinni sýna 17 listamenn frá hinum ýmsu löndum. Þeir hafa dvalið hér á landi í mánuð og tveir þeirra lengur. Allir eru velkomnir og geta skoðað verkin sem unnin eru undir áhrifum frá heimsókn listamannanna og heilsað í leiðinni upp á þá,“ segir Martynas. „Listamennirnir vinna í alls kyns miðla, þarna eru málverk, innsetningar, teikningar og vídeóverk.“

Martynas sem er frá Litháen hefur búið á Íslandi í sjö ár og starfað hjá SÍM í um það bil eitt ár. Hann kom hingað sem gestalistamaður hjá SíM og átti upphaflega að dvelja hér í tvo mánuði og bætti við aukamánuði en heillaðist svo mjög af Íslandi og menningunni að hann ákvað að setjast hér að. Hann segist kunna ákaflega vel við sig á Íslandi og er hæstánægður í starfi sínu hjá SÍM. „Hér hef ég tækifæri til að hitta listamenn frá hinum ýmsu löndum. Mér finnst dásamlegt að sýna þeim íslenska list og menningu.

Erlendir listamenn hafa mikinn áhuga á að dvelja í vinnustofum SÍM og á hverju ári fáum við um 200 umsóknir. Listamennirnir sem skapa list sína á vinnustofum okkar eru mjög ánægðir með að fá þetta tækifæri til að dvelja á Íslandi og íslenskt landslag og náttúra veitir þeim innblástur. Ný kynslóð íslenskra listamanna er svo að setja sitt mark á hinn alþjóðlega listaheim. Það á líka sinn þátt í miklum áhuga erlendra listamanna á því að koma til Íslands, hitta listamennina og heimsækja gallerí og listasöfn og kynna sér norræna listasögu.“