Júró­nördarnir hjá Wiwi­bloggs eru himin­lifandi með Daða og fé­laga í Gagna­magninu eftir fyrstu æfingu dagsins í dag. Þar mátti sjá Gagna­magnið flytja 10 years í fyrsta sinn á stóra Euro­vision sviðinu. Horfa má á við­brögð nördanna í mynd­bandi neðst í fréttinni.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá fór hópurinn upp um eitt sæti hjá veð­bönkum að lokinni æfingu. Hópnum er nú spáð 5. sætinu og ljóst að æfingarnar hafa farið vel í að­dá­endur keppninnar.

Þeir Willi­am og Cinan, sem eru frá einni þekktustu Euro­vision að­dá­enda­síðunni Wiwi­bloggs, voru virki­lega á­nægðir með hvering til tókst. Willi­am segir ein­lægnina vera það sem skín í gegn hjá hópnum.

„Þetta er vand­ræða­legt. En það er viljandi,“ segir Willi­am sem er hæst­á­nægður með sviðs­setninguna hjá hópnum. „Þetta er svo frum­legt!“ segir Cinan. Hann segist vera full­viss um að Gagna­magnið sé með eitt­hvað upp í erminni.

„Mér líður eins og þau séu að fela eitt­hvað. Ég veit ekki af hverju,“ segir hann hress. Báðir eru þeir sam­mála um að söngurinn hjá hópnum sé upp á tíu. Daða hafi liðið vel á sviðinu. Endirinn sé það allra besta.

Loks bætist Suzanne í hópinn. Hún er sömu­leiðis al­sæl með frammi­stöðuna hjá Gagna­magninu. „Þetta er myndin mín af ykkar sviðs­setningu,“ segir hún og út­skýrir sviðs­setningu hópsins.

„Ég hef fylgst með Ís­landi í meira en ár núna. Ég held ekki að Ís­land muni vinna. Það myndi ekki særa til­finningar mínar ef Ís­land myndi vinna. Ís­land er í mínum huga í topp tíu,“ segir hún.

Þau eru þess öll full­viss um að Gagna­magnið komist á­fram í aðal­keppnina.