Andrean Sigur­geirs­son, Ást­rós Guð­jóns­dóttir og Sól­björt Sigurðar­dóttir, dansararnir í hljóm­sveit inni Hatara, segja blendnar til­finningar fylgja frum­sýningu heimildar­myndarinnar A Song Cal­led Hate, sem var sýnd á kvik­mynda­há­tíðinni RIFF í gær­kvöldi. Myndin fjallar um þátt­töku Hatara í Euro­vision árið 2019 og um­deilda stað­setningu há­tíðarinnar.

Líkt og al­þjóð veit fór Hatari fyrir hönd Ís­lands til Tev Aviv á síðasta ári og olli teymið heil­miklu fjaðra­foki fyrir að hafa haldið uppi borða með palestínsku fána­litunum í beinni út­sendingu úr­slita­kvöldið. „Ég forðast enn­þá að hugsa um loka­kvöldið og hvaða til­finningar ég var að upp­lifa,“ segir Sól­björt, sem telur lík­legt að hún hafi upp­lifað tauga­á­fall það kvöld.

„Ég átti mjög erfitt með að vera þarna úti og var hrædd um að ég myndi aldrei sjá barnið mitt aftur og ekki komast heim.“ Upp­lifun ó­rök­réttra kvíða­tengdra hugsana var sam­ofin dvölinni í Ísrael. „Þess vegna hefur mér fundist ó­þægi­legt að rifja þetta upp.“

Vinna úr lífs­reynslunni

Dansararnir eiga það öll sam­eigin­legt að vera enn að vinna úr þeirri upp­lifun sem ferða­lagið var. „Ég fann það eftir á að ég hafði af­tengt mig frá til­finningum mínum til að geta komist í gegnum það sem við vorum að gera,“ segir Ást­rós.

Andrean sam­sinnir því og segist enn vera að taka þessa þol­raun inn. „Það er held ég á­kveðinn hópur sem sér bara glans­myndina sem þetta var og veit ekki hversu erfitt þetta hefur verið fyrir okkur, bæði til­finninga­lega og fag­lega sem lista­menn.“

Ást­rós er sú eina sem hefur séð heimildar­myndina frá upp­hafi til enda, en hinir dansararnir segjast ekki hafa getað fengið sig til að horfa á hana enn­þá. „Ég hef bara séð brot af myndinni og það reif upp allar þessar erfiðu til­finningar,“ segir Sól­björt, sem vildi frekar láta koma sér á ó­vart í faðmi vina og fjöl­skyldu.

„Ég átti mjög erfitt með að vera þarna úti og var hrædd um að ég myndi aldrei sjá barnið mitt aftur og ekki komast heim.“

„Mér fannst mjög ó­þægi­legt að horfa til baka. Það er enn­þá svo margt sem maður er að vinna í sjálfur og hefur forðast að hugsa um í ein­hvern tíma,“ segir Ást­rós hugsi. Það hafi verið furðu­legt að endur­upp­lifa þessa hluti utan frá. „Það gefur manni samt líka frekar góða fjar­lægð frá því sem gerðist.“

Allir að fylgjast með

Þegar það varð ljóst að Hatari myndi fara til Ísrael varð list­ræna teymið í einni svipan mið­punktur fjöl­miðla­hringiðu og opin­berrar um­ræðu á Ís­landi. „Þetta gerðist svo hratt, öll augu voru á manni og maður varð hræddur um að stíga feil­spor,“ viður­kennir Andrean.

Allir höfðu skoðun á gjörningnum og skiptu vinir, kunningjar og ó­kunnugir sér upp í fylkingar, með eða á móti, þátt­taka eða snið­ganga. Andrean telur fólk ekki endi­lega átta sig á því hversu erfitt það sé að verða fyrir höggi svo margra skoðana. „Maður var sjálfur ó­trú­lega ringlaður og vildi hlusta á alla og gera öllum til geðs, en á sama tíma treysta eigin sann­færingu og rétt­lætis­kennd.“

Vildu taka slaginn

Sól­björt og Andrean fóru bæði út með það að mark­miði að svipta hulunni af þeirri glans­mynd sem Ísrael hafði dregið upp af söngva­keppninni. „Maður á­kveður að taka þennan slag og verður þá var við hvernig vinir manns og þau nánustu fara líka að hafa skoðanir, sem ríma ekki endi­lega við þínar eigin,“ segir Andrean. Jafn­vel innan hópsins urðu deilur um hvernig væri best að fara að því að veita Palestínu lið. „Við vildum að mál­staðurinn væri í for­grunni og það voru enda­lausar vanga­veltur um hvernig væri best að gera það,“ bætir Sól­björt við.

„Flest vildum við auð­vitað sjá þetta uppi á sviði en það hefði náttúru­lega aldrei sést út af playbackinu, svo við á­kváðum að láta til skarar skríða þegar við værum í al­vörunni í beinni,“ segir Andrean. Þau hafi gert það besta sem þau gátu í stöðunni. „Við biðum og biðum eftir að mynda­vélin kæmi til okkar og svo gafst okkur loks tæki­færi þarna undir lokin á stiga­gjöfinni.“

Sól­björt segist hafa verið logandi hrædd þetta kvöld og í raun á öllu ferða­laginu. Aldrei hafði hún þó efa­semdir um að berjast fyrir mál­staðinn, þrátt fyrir að til­finningar hafi átt það til að taka völdin.

Ástrós, Andrean og Sólbjört eiga enn erfitt að rifja upp Eurovision tímabilið.
Mynd/Sigtryggur Ari

For­réttinda­blindan hvarf

Ást­rós átti ör­lítið frá­brugðnari upp­lifun en hinir dansararnir. „Ég hafði áður farið til Ísrael og fór því upp­haflega ekki út fyrir mál­staðinn, heldur ferða­lagið og sam­starfið.“ Þegar út var komið breyttist til­gangurinn þó, eftir að teymið ferðaðist um Palestínu.

„Þegar við heim­sóttum flótta­manna­búðirnar í Betlehem urðu ein­hver um­skipti hjá mér.“ Fólkið sagði sögur af lífi sínu og vakti það Ást­rós til um­hugsunar. „Ég komst ekki hjá því að pæla í ó­rétt­lætinu sem felst í því að konur séu að fæða börn í skítugum húsa­sundum, á meðan við höfum öll þessi for­réttindi hérna heima.“

Sem yngsti með­limur hópsins hafði Ást­rós aldrei þurft að horfast í augu við eigin for­réttindi fyrr. „Það risti mig djúpt hversu ó­sann­gjarnt það er að ég hafi fæðst inn í þessi hvítu for­réttindi og hafi aldrei þurft að hugsa um mann­réttindi sem ein­hverja spurningu.“ Þegar hún horfir til baka lætur til­finninga­flóðið ekki á sér standa. „Númer eitt tvö og þrjú upp­lifi ég bara aftur hversu ó­rétt­lát staðan er þarna úti,“ segir Ást­rós og kemst sýni­lega við.

Píndu fólk til að sjá

Það var þó ekki að­eins Ást­rós sem dró lær­dóm af þessari reynslu, heldur upp­lifði allt teymið hversu mikil­vægt það væri að reyna að setja bar­áttu Palestínu í for­grunn keppninnar. „Það var á­stæðan fyrir því að við fórum í Euro­vision og á­stæða þess að við gerðum þessa mynd,“ segir Sól­björt.

Andrean tekur undir. „Ég hef alltaf verið bar­áttu­maður í hjarta mínu og berst sterk­lega fyrir því að mann­réttindi séu virt og að mann­sæmd sé í há­vegum höfð.“

Þrátt fyrir bræðing af góðum, slæmum og hræði­legum dögum, sjá þre­menningarnir ekki eftir að hafa tekið þátt. „Þetta píndi fólk til að sjá það sem var verið að reyna að fela og þess vegna var þetta þess virði,“ segir Ást­rós.

Fólk hafi vaknað til vitundar og tekið af­stöðu til mál­efnis sem hefði annars verið auð­velt að hunsa. „Þetta fékk sömu­leiðis alls konar bar­áttu­sam­tök til að hug­leiða hvort þetta væri góð leið til að skapa sam­tal um stór mál.“ Andrean telur listina oft vera van­metna á því sviði. „Listin fær fólk til að hugsa út fyrir kassann og mér fannst sam­eining aktív­ismans og listarinnar takast vel í þessu sam­hengi.“

Það vakti heimsathygli þegar hljómsveitin lysti borða með palestínska fánanum á síðasta ári.

Rak söngvarana upp í her­bergi

Dansararnir vona einnig að það komi skýrt fram að allar á­kvarðanir hópsins voru teknar í sam­einingu. Þrátt fyrir að hljóm­sveitin hafi verið and­lit teymisins fengu allar raddir að heyrast. „Fólk var mis­rót­tækt í því sem það vildi koma á fram­færi,“ segir Andrean sem barðist sterk­lega fyrir því að borðanum yrði veifað.

„Ég man svo vel eftir því þegar ég var að setja fánana inn á nær­buxurnar mína og í sokkana og ég hélt að allir væru búnir að því.“ Sú reyndist ekki vera raunin og þurfti Andrean að senda söngvarana aftur upp í her­bergi til að sækja sína borða. „Þetta var al­ger sirkus stundum.“

Stöðug við­vera mynda­vélarinnar hafi einnig sett strik í reikninginn að ein­hverju marki. „Við náðum aldrei að vera ein, það var alltaf verið að fylgjast með manni,“ segir Ást­rós. Til­finningar voru því stundum settar á hakann. „Fókusinn var á að ná að styðja mann­réttinda­bar­áttu og sýna hvernig þetta var, frekar en að huga að eigin líðan og hópsálinni.“

Bar­áttunni ekki lokið

Per­sónu­legar vendingar innan og utan hópsins eru því ekki megin­um­fjöllunar­efni heimildar­myndarinnar. „Ég held að það muni koma fólki á ó­vart að þetta sé ekki bara um okkur og dramað sem fylgdi Euro­vision, heldur um miklu stærra og víð­tækara vanda­mál,“ segir Sól­björt. Myndin snúist mikið um þá kúgun sem fylgir dag­legu lífi í Palestínu. „Það sem ég lærði af þessu og vona að aðrir sjái líka, er að mann­réttindi skipta alla máli, alltaf, og það er ekki rétt­lætan­legt að horfa í hina áttina,“ segir Ást­rós á­kveðin.

Frum­sýning myndarinnar markar á­kveðið upp­haf á upp­gjöri við þennan tíma, meðal dansaranna og annarra í teyminu. „Við erum enn í tengslum við palestínska lista­menn sem munu koma til landsins þegar að­stæður leyfa, svo þetta er kannski endir á einum kafla og byrjun á nýjum.“

At­riði Hatara varð ekki til þess að hætt yrði að sprengja upp Gaza eða stofna ó­lög­legar land­náms­byggðir í Palestínu, en opnaði á um­ræðu og sam­starf. „Þó svo að þessi gjörningur sé á enda kominn, þá er enn verið að brjóta mann­réttindi í Palestínu og við vonum að fólk haldi á­fram að vera vakandi fyrir því og taki af­stöðu.“ Bar­áttunni er ekki lokið. „Við vonum bara að þessi mynd haldi áfram vekja athygli á því.“