Skáldið og rit­höfundurinn Díana Sjöfn Jóhanns­dóttir hefur sent frá sér sína aðra ljóða­bók, Mamma þarf að sofa. Díana segir bókina vera tölu­vert frá­brugðna fyrri ljóða­bók hennar, Freyju sem kom út 2018 hjá Með­göngu­ljóðum, þótt stíllinn og tónninn sé svipaður.

„Um­fjöllunar­efnin eru miklu þroskaðri. Í fyrri ljóða­bókinni minni var þetta voða ung­menna­legt, ást og djammið, en núna fjalla ég meira um móður­hlut­verkið. En ég er með svipaðan stíl sem er greini­lega bara minn stíll, hvers­dags­legt mynd­mál og svona,“ segir hún.

Ég missti mína móður 2016 og einhvern veginn kom þetta bara til mín.

Skrifaði í fæðingar­or­lofinu

Díana eignaðist dótturina Freyju árið 2020 og segir hún það að verða móðir hafa haft tölu­verð á­hrif á skrif bókarinnar. Nokkrum árum áður hafði Díana misst móður sína og leitaði hún einnig í þá reynslu við skrifin.

„Ég missti mína móður 2016 og ein­hvern veginn kom þetta bara til mín. Ég var að skrifa í fæðingar­or­lofinu og það var gaman að detta í að skrifa ljóð inni á milli þess sem barnið svaf. Allt í einu kom sú hug­mynd til mín að skrifa um þessi þrjú stig; æskuna, þegar ég var barn og átti móður, svo það að missa móður og loks það að verða móðir sjálf.“

Að sögn Díönu voru margar spurningar varðandi móður­hlut­verkið sem leituðu á hana sem hún hefði viljað geta spurt móður sína.

„Þegar maður verður móðir þá hugsar maður svo­lítið mikið til sinnar eigin móður og hvernig hún ól mann upp og hvað hún gerði. Það er margt sem ég fæ aldrei svar við. Margt sem ég kannski hefði viljað vita, eins og með brjósta­gjöf,“ segir hún.

Mamma þarf að sofa er önnur ljóðabók Díönu en hún sendi áður frá sér bókina Freyja.
Kápa/Ingibjörg Oddsdóttir

Úr­vinnsla á til­finningum

„Þetta er mjög per­sónu­leg bók. Mér finnst ég flæða best og vera best þegar ég er mjög per­sónu­leg. Í ljóðum alla­vega, ekki í skáld­sögum,“ segir Díana.

Á­samt því að skrifa ljóð hefur Díana einnig sent frá sér skáld­söguna Ó­lyfjan, sem kom út 2019. Sú bók er þó tölu­vert frá­brugðin hinum per­sónu­lega stíl sem ein­kennir Mamma þarf að sofa og önnur ljóð Díönu.

„Þetta var svo­lítil úr­vinnsla náttúr­lega. Á þessari sorg að missa mömmu og úr­vinnsla á því að verða móðir. Það eru náttúr­lega margar til­finningar sem fylgja, sér­stak­lega þegar maður er í fæðingar­or­lofi og er að gera margt í fyrsta sinn.“

Það er margt sem ég fæ aldrei svar við. Margt sem ég kannski hefði viljað vita, eins og með brjóstagjöf.

Minningar og gleymska

Fannst þér erfitt að ganga svo nærri sjálfri þér í ljóðunum?

„Já, en stundum hefði ég kannski mátt fara nær. Svo fannst mér alveg smá erfitt eftir að bókin kom út þegar ég fattaði að það eru allir að lesa mínar innstu hugsanir. Á sama tíma finnst mér það líka gott að geta notað ljóð­listina til að segja hvernig mér líður og það eru oft ein­mitt margar til­finningar sem maður getur ekki sagt öðru­vísi.“

Bókin fjallar um stór þemu eins og dauðann, móður­hlut­verkið og minningar. Díana segist hafa áttað sig á ýmsu við skrifin.

„Þegar ég fór að skoða fyrsta kaflann um æskuna fann ég að það er margt sem ég man ekki og mig langar að muna. Eitt ljóðið fjallar um það að gleyma og hvort dóttir mín muni ekki líka gleyma öllu því sem ég er að of­hugsa núna með hana. Bæði vinn ég úr mínum til­finningum og kafa lengra til að upp­lifa mömmu á ný í gegnum ljóðin.“

Úr Mamma þarf að sofa:

ég las það úr himin­tunglunum
að einn plús einn værum við
ég kann ekkert í stærð­fræði
né línu­legum til­finninga­skala
en þegar við verðum þrjú
munu hjarta­hólfin sem geyma þetta góða
marg­faldast