Suður-afríska stórleikkonan Charlize Theron segist eiga í brattann að sækja í Hollywood þar sem hún er ekki á sama grundvelli og stjörnur á borð við Kim Kardashian.

Charlize Theron er Óskarsverðlaunaleikkona sem hefur slegið í gegn í myndum á borð við Mad Max, Monster, Æon Flux, Bombshell og Prometheus svo fátt eitt sé nefnt. Hún segir að þrátt fyrir farsælan feril eigi hún í basli við fá fjármagn fyrir verkefni sín.

Leikkonan ræddi við tímaritið Harper's Bazaar en þar sagði hún:

„Ég verð ekkert frægari þó ég vinni meira. Þetta hefur verið frekar miðlungs ferðalag. Ég hef aldrei verið þessi manneskja sem er á sama grundvelli og Kim Kardashian. Þannig hefur það alltaf verið.“

Þó má sjá á kvikmyndavefnum IMDB að leikkonan hafi haft í nógu að snúast. Árið 2020 framleiddi hún og lék í kvikmyndinni The Old Guard. Búið er að tilkynna fjögur verkefni framundan hjá henni, þar á meðal tvær framhaldsmyndir, annars vegar fyrir The Old Guard og hins vegar fyrir Atomic Blonde.

Charlize Theron umbreyttist fyrir kvikmyndina Monster, þar sem hún lék fjöldamorðingjann Aileen Wuornos.

Theron telur að hún hafi ekki jafn mikið vægi í dag þrátt fyrir að vera stórstjarna.

„Áður fyrr var sagt að með frægðinni myndu allar dyr opnast. En nú þarf ég eyða öllum mínum tíma í að „pitcha“ þessi helvítis verkefni og ég fæ bara endalausar hafnanir.“

Á síðustu árum hefur Charlize stimplað sig inn sem hasarmyndastjarna.