Rauða hárið og dularfullt augnaráð leikkonunnar Marcia Cross rímaði vel við persónuleika Bree Van de Kamp hinnar fláráðu og slóttugu húsmóður sem hún lék svo eftirminnilega í sjónvarpsþáttunum Desprate Houswifes.

Undanfarið hefur leikkonan tekist á við mun flóknara hlutverk en áður en hún lauk nýlega strangri krabbameinsmeðferð. Mörgum brá í brún þegar snoðklippt Marcia birti mynd af sér á Instagram þar sem hún harmaði hármissinn vegna veikindanna. Það sem vakti undrun flestra var ekki sú staðreynd að rauða hárið væri horfið heldur hitt að leikkonan ætti í baráttu við krabbamein.

Aðdáendur og fylgjendur leikkonunnar á Instagram deildu reynslusögum af hármissi í kjölfar krabbameinsmeðferðar og sendu Marciu fjölmargar baráttu og batakveðjur. Af viðbrögðum sumra mátti halda að leikkonan væri við dauðans dyr en svo reyndist ekki vera þar sem lyfjameðferðinni lauk fyrir nokkrum mánuðum. Marcia sá sig knúna til að upplýsa um stöðu mála og baðst afsökunar á því að hafa valdið misskilningi með myndbirtingunni.