Það er um eitt og hálft ár síðan tónlistarkonan Ragnheiður Gröndal hætti neyslu á öllum dýraafurðum. „Sú ákvörðun átti sér aftur á móti margra ára aðdraganda og ég hef verið grænmetisæta með mislöngum hléum frá því ég var unglingur. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun var í raun einföld, ég elska öll dýr og vil ekki lengur eiga þátt í þjáningu þeirra með beinum eða óbeinum hætti.“

Aðspurð hvort það hafi verið erfið ákvörðun að gerast vegan, segist hún geta svarað þeirri spurningu bæði játandi og neitandi. „Margir eru á þeirri skoðun að það sé ekki hægt að fá öll næringarefni sem við þurfum án þess að neyta dýraafurða og ég lét þá rótgrónu hugmynd stjórna mér allt of lengi. Þangað til ég ákvað að hugsa þetta sem tilraun á sjálfri mér. Ég ákvað því að prófa að gerast 100% vegan í eitt ár og hugsaði með mér að það væri alltaf hægt að snúa til baka. Mér er eins og flestu fólki mjög annt um heilsuna mína og enn sem komið er líður mér ótrúlega vel.“

Miklir möguleikar í boði

Hún segir það hafa komið sér helst á óvart við vegan lífsstílinn hversu rosalega fjölbreyttur matur sé í boði og að möguleikarnir séu endalausir þegar kemur að vali á hráefni. „Ég finn eiginlega ekkert neikvætt sem ég vissi ekki fyrirfram, nema kannski það að fólk þarf mikið að ræða þetta við mig. Sojabauna- og regnskógaumræðan er til dæmis sígild, sem og umræðan um kolefnissporið sem fylgir því að flytja matvæli langar leiðir í stað þess bara að borða íslenska skyrið og lambakjötið. Ég fæ sting í hjartað þegar ég þarf að rökstyðja þessa ákvörðun því hún er algjörlega tekin út frá sálinni og innsæinu.“

Ragnheiður hefur alla tíð eldað mestmegnis grænmetisrétti heima hjá sér en eftir að hún gerðist grænkeri segist hún loks hafa lært að elda og meðhöndla tófú. „Og maður minn, þvílíkt töfrahráefni. Ég er mjög oft með tófúrétti, grænmetissúpur, baunir, borgara, buff og vefjur þannig að mataræðið á heimilinu er mjög fjölbreytt. Við verslum mikið í Veganbúðinni í Skeifunni, þar þarf ég aldrei að lesa innihaldslýsingar og fæ allar nýjungarnar í vegan-heiminum beint í æð.“

Mörg sjónarmið uppi

Hún segist hafa á tilfinningunni að þróunin í heiminum sé almennt í átt að meðvitaðri umgengni við jörðina, dýrin og okkur sjálf. En sjónarmiðin séu mörg og ólíkar hugmyndir um nálgun. „Of mörgum, sérstaklega ráðandi öflum, finnst núverandi matvælakerfi eðlilegt og eru ekki að missa svefn yfir stöðunni eins og hún er. En við erum allavega búin að viðurkenna sem samfélag að dýr eru verur sem finna til – alveg eins og við. Eftirspurn eftir plöntufæði eykst dag frá degi, mér sýnist til dæmis Oatly-haframjólkin vera orðin vinsælli í kaffidrykki heldur en G-mjólkin. Og margir kjósa grænmetisborgara í stað nautakjötsborgara og eru almennt jákvæðir gagnvart plöntufæði.“

Hluti af skammdeginu

Næsti stóri viðburður á dagskrá Ragnheiðar eru tónleikar í Iðnó í lok nóvember. „Árið 2004 kom út diskurinn Vetrarljóð sem var einn vinsælasti geisladiskur þess árs. Margir aðdáenda minna elska þennan disk og hann er órjúfanlegur hluti af skammdeginu hjá fullt af fólki. Fyrir nokkrum árum fékk ég þá flugu í höfuðið að setja upp tónleika sem myndu byggja á þessum diski. Núna er ég að endurtaka leikinn í fjórða skiptið og verð með tónleika í Iðnó ásamt hljómsveit 25. nóvember klukkan 20 en hægt er að nálgast miða á Tix.“ ■