Ég var orðinn þreyttur á garðhúsgögnum sem urðu ónýt og ljót eftir veturinn en svo bað konan mig um að smíða handa sér útihúsgögn og ég kemst sjaldnast upp með að fresta því sem hún biður mig um,“ segir Jón Axel og skellir upp úr.

Úr varð að eiginkonan, María B. Johnson, teiknaði upp útlit á draumaborðinu og Jón Axel smíðaði fyrir hana veglegt borð og bekki í garðinn.

„Síðan hefur þetta undið upp á sig og orðið að skemmtilegu hobbíi en ég smíða bara fyrir þá sem ég þekki. Þetta er eins og í frímúrarareglunni, þangað fer enginn inn nema að þekkja frímúrara og fá meðmæli, og því þarf að tala við mann sem þekkir mig til að komast í borðin,“ segir Jón Axel og hlær dátt.

Það var í ágúst 2017 sem Jón Axel rak smiðshöggið á fyrsta borðið.

„Ég er nú ekkert að hamast en hef smíðað fyrir vini mína og fjölskyldu og engin tvö borð er eins. Þau eru einstakt handverk sem ég nostra við af alúð og umhyggju fyrir þá sem ég smíða fyrir,“ útskýrir Jón Axel sem stefnir ekki á fjöldaframleiðslu húsgagnanna.

„Ég smíða bara þegar ég er í stuði og aldrei af kvöð, og mikilvægt að leyfa því að vera þannig. Því miður geta ekki allir fengið borð því ég smíða ekki fyrir hvern sem er og bara þeir sem ég treysti til að hugsa vel um þau fá sett í garðinn eða sumarbústaðinn,“ útskýrir Jón Axel.

„Að smíða er mitt jóga. Ég er heppinn af hafa aðstöðu þar sem ég get smíðað og fínt að geta skotist frá Excel-vinnunni, farið úr jakkafötunum yfir í vinnugallann og sett músíkina í botn sem ég fæ ekki að spila heima, en ég fæ til dæmis aldrei að spila gott kántrí heima í stofu,“ segir Jón Axel kíminn.

Með smiði í blóðinu

Jón Axel ber nöfn afa sinna, Jóns Hannessonar húsasmíðameistara og Axels Helgasonar módelsmiðs.

„Það er kannski þess vegna sem ég er nú óvænt dottinn í smíðina,“ veltir afastrákurinn Jón Axel fyrir sér, en á uppvaxtarárunum dundaði hann mikið með Jóni afa sínum við smíðavinnuna.

„Ég er þó alls ekki handlaginn en bý að því að báðir afar mínir voru smiðir, og svo auðvitað pabbi líka. Í gegnum þá hef ég lært sitt lítið af hverju og er því sæmilega liðtækur í pallasmíði og alls kyns tréverk í sumarbústaðnum, en ég smíða alls ekki hús!“ upplýsir Jón Axel.

Besti vinur Jóns Axels er fjölmiðlamaðurinn og húsasmiðurinn Gunnlaugur Helgason, betur þekktur sem Gulli byggir eða Gulli Helga, en snemma á tíunda áratugnum slógu þeir í gegn í einum vinsælasta útvarpsþætti landsins, Tveir með öllu.

„Gulli smitaði mig reyndar ekki af smíðabakteríunni en hann lærði húsasmíðina hjá afa og því erum við kannski að taka blöð af sömu greininni. Gulli er virkilega vandaður og góður smiður, en ég er hvorki lærður né sérlega lunkinn við smíðarnar og því má alls ekki bera okkur félagana saman þegar kemur að smíðum,“ segir Jón Axel hógvær.

Garðsettin smíðar hann úr gegnheilum furuborðum.

„Markmiðið er að búa til húsgögn sem duga næstu hundrað árin, fjúka ekki og er ekki hægt að stela. Þau þola allar íslenskar árstíðir, níðsterk og traust. Ég skila þeim af mér ófúavörðum og hver og einn litar þau að eigin smekk,“ segir Jón Axel sem nú undirbýr smíðina úr íslenskri furu.

„Ég er líka að dunda mér við að smíða borðstofuborð til innanhússbrúks en smíða auðvitað ekkert nema með samþykki konunnar. Við hjónin erum því saman í þessu skemmtilega áhugamáli. Ég er svo heppinn og vel giftur að smekklegheitin koma aðallega frá Maríu en fyrir mér liggur það sem er utandyra og ég kaupi fagmenn í það sem þarf að standsetja innanhúss.“

Galdurinn að eiga góða konu

Komið er ár síðan Jón Axel settist aftur við hljóðnemann í útvarpi. Þá var aldarfjórðungur síðan hann gladdi útvarpshlustendur með rödd sinni og persónuleika.

„Ég tók sæti Loga Bergmanns í morgunþætti K100 þegar hann var í lögbanninu í fyrra en svo þótti honum betra að vera vakandi í útvarpinu og fór yfir í síðdegisútvarpið þar sem hann er virkilega að glansa með Huldu Bjarna. Ég hef gaman af því að vera í útvarpi. Þar er líf, fjör og frelsi sem passar mér vel í stað niðurnjörvaðrar rútínu,“ segir Jón Axel sem rífur sig á lappir klukkan hálffimm á hverjum morgni til að mæta í morgunþáttinn sem stendur frá 6 til 9.

„Maður þarf að taka bakaravaktina á þetta og ég reyni að vakna á undan Gulla sem er í morgunþætti Bylgjunnar. Galdurinn við að vakna hress og kátur er að eiga góða konu. Hún vekur mig alltaf með kossi og því hlakka ég alltaf svo til að fara að sofa,“ segir Jón Axel kátur.

„Víst væri gaman að fara einhvern tímann aftur í útvarpið með Gulla og ætli við tökum ekki lokasprettinn saman þegar við verðum báðir komnir með frítt í strætó,“ segir Jón Axel sem átti útvarpsstöðina Stjörnuna með Gulla og fleirum á árunum 1987 til 1989.

„Ég skrásetti vörumerkið Stjarnan FM í sumar að gamni mínu. Það er gott að eiga það til ef vantar hobbí í ellinni. Þá gerir maður kannski eitthvað skemmtilegt; þegar við Gulli fáum ekkert annað að gera,“ segir hann og hlær.

Kemur sjálfum sér á óvart

Jón Axel er með mörg járn í eldinum. Auk smíða og útvarpsmennsku situr hann í stjórn síns gamla fyrirtækis, Eddu útgáfu, og er stjórnarformaður og einn eigenda bílaleigunnar Lotus Car Rental í Keflavík.

„Ef ég ætti að draga saman hvað það er sem fær mig til að tikka er það sköpun og skiptir þá litlu á hvaða sviði það er. Það liggur ekki fyrir mér að vera alltaf í því sama. Ég virðist blómstra á mörgum sviðum og kem sjálfum mér stöðugt á óvart,“ segir Jón Axel og sá ekki fyrir að hann yrði fjölhæfur bisnessmaður á útvarpsárunum í gamla daga.

„Maður hefur ýmislegt reynt, sumt hefur gengið vel og annað ekki, en nú er ég kominn á þann stað í lífinu að það er mikilvægt að gera bara skemmtilega hluti, eingöngu skemmtileg verkefni, eins og til dæmis smíðina. Smíðavinnan mín er þannig að um leið og hún verður að kvöð eða vinnu sem verður að gerast falla á mig tvær grímur,“ segir Jón Axel sem árið 2009 tók yfir Eddu útgáfu sem vakti heimsathygli fyrir íslensk hugverk sem þróuð voru undir merkjum Disney, en þar má nefna matreiðslubækur Disney og Frozen hárgreiðslubókina sem enn er seld um allan heim.

„Ég seldi Árvakri Eddu árið 2016 en sit enn í stjórn útgáfunnar, svona til aðstoðar. Edda hefur gengið virkilega vel hjá nýjum eigendum en hún hefur algjöra sérstöðu og ekkert bókaforlag á landinu sem framleiðir eins mikið efni fyrir börn og unglinga. Segja má að góð sala á barnabók sé 3000 eintök en Edda sendir út nálægt 20 þúsund eintök í hverjum mánuði til sinna áskrifenda. Það er því mikil ábyrgð fyrir íslenskt mál og börnin í landinu að lesa,“ upplýsir Jón Axel.

„Viðskipti snúast til dæmis um að taka það sem er fyrir hendi, breyta því og gera meira úr því. Tveir ungir frumkvöðlar í menntaskóla stofnuðu bílaleiguna Lotus með fjórum gömlum bílum árið 2014. Um mitt ár 2016 kom ég að félaginu með ráðandi hlut, með það fyrir augum að byggja á þeim grunni sem lagður hafði verið af stofnendum þess. Í dag erum við með rúmlega 300 bíla og munum stækka um rúmlega 40 prósent á þessu ári. Afkoman er mjög góð, reksturinn í góðu jafnvægi og síðastliðin þrjú ár hafa farið í að byggja upp fyrirmyndar fyrirtæki sem býður frábæra þjónustu með vel skipulagðan rekstur. Mitt verkefni hefur kannski aðallega verið að koma með reynslu, yfirsýn og aðhald, og hjálpa frumkvöðlunum að skipuleggja starfsemina. Það er spennandi verkefni og áskoranirnar eru margar, en við höfum verið heppnir með reksturinn og hann gengur í raun langt umfram væntingar. Það er gaman að taka þátt í svona verkefnum, umbylta þeim og skapa eitthvað nýtt og meira.“

Jón Axel og bróðir hans, Jóhann Garðar Ólafsson, hafa líka haldið hönnun afa síns Axels Helgasonar hátt á lofti, en hann var kunnur módelsmiður sem vann á fimmta hundruð módela af byggingum Reykjavíkur þegar þær voru í frumhönnun á fyrri hluta 20. aldar.

„Afi hafði ungur ofan af fyrir sér með upphleyptum kortum af Íslandi. Sumt var notað í kennslu en hann gerði líka stórt steypt Íslandskort sem var á Bernhöftstorfunni og Íslandskort sem var sett utan Austurbæjarskólann við byggingu hans og er þar enn. Afi gerði líka, ásamt fleirum, stóra Íslandskortið í Ráðhúsinu og í fyrrasumar opnuðum við sýningu um afa á Hótel Breiðdalsvík þar sem sjá má fjögurra tonna Íslandskort og sýningu á verkum hans,“ útskýrir Jón Axel en þeir bræður hafa líka endurskapað vinsæl Íslandskort afa síns til heimilisprýði og hægt er að nálgast á icelandbyaxel.is.