Ný á­breiða af lagi Páls Óskars, Er þetta ást?, með þeim Unn­steini Manueli Stefáns­syni og Svein­birni Thoraresen, betur þekktur sem Hermi­gervill, hefur slegið ræki­lega í gegn síðustu vikurnar. Á­breiðan var frum­flutt í sjón­varps­þættinum Tóna­tal fyrr í mánuðinum og hefur slegið hressi­lega á hjarta­strengi landans síðan.

„Það sem er magnað við tón­listina hans Palla er að hún er svo tíma­laus,“ segir Unn­steinn. Lagið sem um ræðir kom út árið 2007 og var á plötunni Allt fyrir ástina. „Þessi plata hefði allt eins getað komið út í gær,“ í­trekar Unn­steinn. „Því meira sem tón­listin kemur frá hjartanu því lengi lifir hún.“

Heyrði textann í fyrsta skipti

Lagið er flutt að­eins hægar en upp­runa­lega lagið og fær textinn því meira rými. Höfundurinn, Páll Óskar, segir að honum hafi liðið eins og hann væri að heyra textann í fyrsta skipti þegar hann hlustaði á flutning Unn­steins.

„Ég virka bara þannig að ég geri mér aldrei grein fyrir hvernig lögin mín koma út fyrr en ég heyri aðra flytja þau,“ segir Palli hlægjandi.

Ís­lenski popp­guðinn hafði ekki hug­mynd að tví­eykið hygðist gera á­breiðu af laginu í þættinum, en hringdi himin­lifandi í Unn­stein eftir að hann heyrði lagið. „Ég óskaði honum til hamingju og þakkaði honum fyrir að velja þetta lag sér­stak­lega.“

Sveinbjörn og Unnsteinn höfðu lengi leitað að rétta laginu til að taka og kallaði Er þetta ást sérstaklega til þeirra að sögn Unnsteins, sem hefur lengi verið aðdáandi Palla.

Ábreiða Sveinbjörns og Unnsteins er væntanleg á Spotify bráðlega.

Engin mörk

Lagið er Palla hug­leikið þar sem hann hefur sjálfur verið í þeim sporum að mis­skilja ástina og halda að höfnun og at­hygli sé upp­skrift af kær­leika. „Það tók mig mörg ár að læra þetta og komast yfir þetta.“

Palli segir full­ljóst að karakterinn í laginu sé ekki að upp­lifa raun­veru­lega ást. „Hann er búin að gefa allt og setur engin mörk og gefur og gefur allt of mikið.“ Ástin gangi þar að auki ekki út á að kveljast og þjást. „Um leið og þér líður illa í sam­skiptum við ein­hvern eða kvíðir því að fara heim til þín þá get ég lofað því að það er ekki al­vöru ást,“ segir Palli.

„Al­vöru ást er held ég mjög ein­föld. Al­vöru ást er ekkert drama eða ó­jafn­vægi.“

Sjúk ást

Í dag er ein­faldara að koma auga á rauða fána að mati Palla. Það sé meðal annars þökk sé vitundar­vakningu og á­tökum á borð við Sjúk ást. „Í gamla daga, eða árið 2000, hélt ég úti út­varps­þáttum sem hétu Doctor Love og það hefði verið ofsa­lega gott á þeim árum ef Sjúk ást hefði verið komin í gagnið.“ Tímarnir hafa þó sem betur fer breyst að sögn Palla, sem er því guðs­lifandi feginn.

„Góð vísa er þó aldrei of oft kveðinn,“ segir Palli. Nauð­syn­legt sé að minna á hluti sem máli skipta. „Ég er ofsa­lega fegin því að þetta lag er aftur komið í loftið. Það er gott að rifja þetta upp aftur, ekki síst fyrir sjálfan mig.“