Þorgerður Katrín er fædd í Reykjavík og uppalin í Breiðholtinu en fór snemma til Hafnarfjarðar að elta ástina sem blómstraði á unglingsárunum. Hún náði ástinni sinni í Hafnarfirði og eiga þau hjónin þrjú börn og hund og ástin blómstrar sem aldrei fyrr. Þorgerður Katrín er menntaður lögfræðingur og starfar í dag sem alþingismaður sem er einmitt starf þar sem klæðaburður er áskorun og ákveðnar kröfur eru gerðar til alþingismanna um klæðaburð.

Fyrsta val eru gallabuxur og bolur

Þegar Þorgerður Katrín er spurð hvort hún hafi alltaf haft skoðun á því hvernig fötum hún vilji klæðast segir hún svo ekki vera. „Ég hef ekki haft miklar skoðanir eða áhuga á fötum fyrr en síðari árin. Mér finnst gaman að fylgjast með íslenskri hönnun og gróskunni á þeim vettvangi. Fyrsta val mitt án allra skuldbindinga eru gallabuxur og bolur. Húfur og slár eru líka ómissandi.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Mjög venjuleg í klæðaburði, gallabuxur, grófir skór eða hvítir íþróttaskór, bolir og alls kyns peysur. Elska rúllukragann. Er kannski ekki alltaf alveg kvenleg í fatavali. Er pínu brussa og klæði mig kannski í samræmi við það.“

Þorgerður Katrín er mikill náttúruunnandi og nýtur þess sem mest að vera í sveitinni með fjölskyldunni og þá er þægilegur fatnaður viðeigandi og hentar best.

Þorgerður Katrín segist oft taka fram kjóla þegar hún fer í vinnuna eða jakka og betri buxur.

Fer tiltölulega snyrtileg í vinnuna

Aðspurð segir Þorgerður Katrín það skipta máli að velja klæðnað til að vera í, eftir tilefni. „Mér finnst tilefnið oft skipta máli. Þú klæðir þig eðlilega öðruvísi þegar þú ferð í sveitina eða göngutúra frekar en í vinnuna. Fer tiltölulega snyrtileg í vinnuna og tel skipta máli að sýna Alþingi virðingu og vera ekki drusluleg til fara. Það er hins vegar smekksatriði þannig að það fer bara eftir hverjum og einum. Ég tel til að mynda snyrtilegar gallabuxur ekki stríða gegn óformlegum reglum Alþingis þótt ekki séu allir sammála því. Tek þó oftar fram kjóla á þeim vettvangi eða jakka og buxur. Sama gildir um leikhús. Hver og einn spilar á sína fiðlu þegar kemur að fötum. Finnst afar gaman að sjá fólk í áhugaverðum klæðnaði og fá hugmyndir á mannamótum. Dáist að hugmyndaflugi margra og sköpunargáfu í samsetningu fatnaðar.“

Þorgerður segist vera hrifin af samfestingum og hér klæðist hún einum slíkum.

Góður samfestingur vanmetinn

Þegar kemur að vali á sniðum, er eitthvað sem heillar þig frekar en annað?

„Já, mér finnst alltaf gaman að góðum samfestingum og svo á kona aldrei nóg af kjólum. Eitthvað sem ég vildi alls ekki vera í á mínum fyrri árum. Kjólar leysa mjög margt og eru langflestir þægilegir. Samfestingar eru einnig vanmetnir.

Svo þetta klassíska, ég er veik fyrir skóm, og er víst ekki ein um það.“

Þorgerður Katrín segist halda upp á einstaka flíkur og það fari svolítið eftir árstíðum hvaða flíkur eru í uppáhaldi hverju sinni. „Það fer svolítið eftir árstíðum. Stundum tilteknir samfestingar, stundum gallabuxur og ákveðin lopapeysa. Svo þykir mér alltaf vænt um mokkakápu sem ég splæsti á mig fyrir meira en 20 árum. Nota hana mikið.“

Jarðlitir eru uppáhalds

Þorgerður Katrín á mjög erfitt með að nefna einhvern einn uppáhaldshönnuð frekar en einhvern annan. „Mér finnst íslenskir hönnuðir margir hverjir frábærir. Þori vart að byrja að nefna þá af hræðslu við að gleyma einhverjum en fötin frá Steinunni eru afar smekkleg og falleg, það sama gildir um marga hönnuði hjá Kiosk sem er búð, líka úti á Granda.“

Fyrir utan hönnuðina hér heima á Íslandi finnst henni Massimo Dutti ágætt merki. „Þokkalega ódýrt en margt smart og gott úrval.“

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum hverju sinni eða áttu þér þína uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég sæki alltaf mest í jarðliti. Appelsínugult og svart er síðan alltaf innan seilingar. Og auðvitað bláar gallabuxur.“

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Grófir brúnir skór með þokkalegum hæl er alltaf fyrsta val yfir daginn. Finnst mikilvægt að eiga hvíta íþróttaskó. Ef það er eitthvert skómerki sem ég laðast að þá eru það Chie Mihara og Nike.“

Þegar þú velur þér fylgihluti hvað finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Gróf armbönd og flotta lokka.“

Þorgerður Katrín er á því að hver og einn eigi að velja sinn persónulega fatastíl sem viðkomandi líður vel með, það sé fyrir öllu. „Mér finnst mikilvægt að hvert og eitt okkar fái að vera eins og við kjósum sjálf og líður vel með. Vera frjáls í fatavali – líkt og í lífinu sjálfu – án þess að það kalli á endalausar aðfinnslur.“