„Við báðar höfum litið á fjallgöngu sem líkamsrækt. Þetta hófst fyrir nokkrum árum. Við vildum prófa eitthvað nýtt og byrjuðum á því að ganga upp á Úlfarsfell og Helgafell. Við duttum strax í gírinn og síðastliðin þrjú sumur höfum við verið að fara á fleiri staði, bæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eins og á Vífilsfellið, fellin í Mosó, Móskarðshnjúka og á fleiri staði. Við fórum til að mynda Laugaveginn í fyrra sem var alveg ótrúlega gaman. Við erum báðar þannig að ef okkur dettur í hug að fara eitthvað, þá erum við bara farnar,“ segir Guðríður.

Guðríður, eða Gurrý eins og hún oftast nefnd, á glæsilegan handboltaferil að baki en hún var um árabil besta handboltakona landsins og saman unnu hún og Sigrún fjölmarga titla með Fram og léku báðar með landsliðinu. Guðríður lék 84 landsleiki og skoraði í þeim 382 mörk og Sigrún spilaði 31 landsleik og skoraði í þeim 48 mörk.

Geðgöngurnar og geðlyfin

Guðríður segir það fara eftir veðri og vindum hversu oft þær gangi á fjöll í hverri viku. „Ég myndi segja að við förum í fjallgöngu að meðaltali tvisvar - þrisvar í viku og skiptir þá engu máli hvort það sé vetur eða sumar. Við grínuðumst með það í Covidinu að þetta væru geðgöngurnar okkar og geðlyfin. Við fáum svo mikið út úr þessu og það má segja að þetta sé orðin ákveðin fíkn. Okkur langaði að ganga Grænahrygg í Landmannalaugum í fyrrasumar en komumst ekki. En um daginn skelltum við okkur í dagsferð þangað og það var alveg magnað. Við höldum áfram að fara á Vífilfellið, Helgafellið og Úlfarsfellið, en svo erum við alltaf að ganga á fleiri staði og þar ég nefnt Sköflung á Hengilssvæðinu, Hengilinn, gönguleiðir á Hellisheiði og Akrafjallið. Þá höfum við farið upp á mörg fjöll í Hvalfirðinum. Það eru endalausir möguleikar,“ segir Guðríður.

Er eitthvað fjall í uppáhaldi hjá ykkur?

Vífilsfellið er alltaf í svolitlu uppáhaldi hjá okkur og það er líka mjög gaman að fara á Móskarðshnjúkana. Í fyrra fórum við á Hafnarfjall og gengum á hæsta tindinn sem er Gildalshnúkur. Það var virkilega góð ferð. Útsýnið þar uppi var frábært og við sáum til að mynda eldgosið, horfðum yfir Borgarnes og í Hvalfjörðinn. Ég var oft búin að líta á Hafnarfjallið þegar ég var á ferð upp í Borgarnes og segja við mig sjálfa: Þarna er maður ekkert að fara. En við létum slag standa,“ segir Guðríður.

Gurrý segist hætt að fara á líkamsræktarstöðvarnar og velji nú alfarið að stunda sína líkamsrækt með því að ganga á fjöll. „Mér líður svo ótrúlega vel eftir hverja fjallgöngu og ég fæ svo mikla andlega næringu og hreyfingu með þessum fjallaferðum. Við frænkurnar, sem vorum saman í handboltanum í gamla daga, erum svo líkar í hugsun. Við löbbum á svipuðum hraða og lítum eins á hlutina. Þegar við setjumst inn í bíl eftir fjallgöngurnar segjum við: Djöfull var þetta æðislegt,“ segir Guðríður, sem tók sér smá pásu frá fjallabröltinu í júní í sumar. Þá skellti hún er sér í viku hjólaferð með gömlum útskriftarskólafélögum úr Íþróttakennaraskóla Íslands til Ítalíu þar sem hópurinn hjólaði 300 kílómetra um Veneto héraðið á Ítalíu.

„Þetta var þriðja hjólaferðin sem við hjónin förum með þessum hópi. Fyrsta ferðin var um eyjarnar fyrir utan Split í Króatíu, svo var það Ungverjaland og nú Ítalía. Þetta voru allt æðislegar ferðir. Ég myndi segja að mín hreyfing í dag sé klárlega útivera.“