Um er að ræða skipulagða tíma með mismunandi áherslum sem allir eiga það sameiginlegt að fara fram í sal sem er hitaður upp fyrir líkamshita eða í 38 til 40 gráður. Raki salarins hækkar jafnframt í 40 prósent.

Heitt jóga hefur verið til í áratugi en nú er farið að kenna ýmis konar æfingar í upphituðum sölum þar sem iðkendur svitna mun meira en ella og upplifa þannig eins konar hreinsun. Það er misjafnt hvernig fólk upplifir áreynslu í svo miklum hita; á meðan mörgum þykir auðveldara að koma kroppnum í erfiðar stöður eiga aðrir erfitt með að reyna á sig í svo miklum hita.

Þetta er auðvitað allt spurning um smekk en eitt er víst að ef markmiðið er að koma út svita er þetta árangursrík leið. Eins hefur ekkert bent til þess að æfingar í heitum sal séu á einhvern hátt skaðlegar nema að iðkendur sem þjást af hjartveiki ættu að fara varlega. Það er þó eins með þessa tegund hreyfingar líkt og aðrar að mikilvægt er að fara rólega af stað og ætla sér ekki of mikið eða of langan tíma í upphafi. Sjá hvernig líkaminn bregst við og lengja frekar tímann jafnt og þétt. Einnig er mikilvægt að vökva líkamann með því að vera með vatnsbrúsa við höndina og gæta þess að þorna ekki upp.

Mikilvægt er að fara rólega af stað þegar æft er í heitum sal og leyfa líkamanum að venjast hitanum. Mynd/Getty

Nokkur góð ráð fyrir æfingu í heitum sal

Byrjaðu rólega

Hér gildir það sama og í öðru, að fara rólega af stað. Þar sem líkaminn er fljótur að hitna og vöðvarnir að mýkjast er ekki ólíklegt að þú eigir auðveldara en ella með að komast í stöðurnar, en gættu þess að fara ekki of djúpt eða langt því þú vilt nú geta hreyft þig þegar kroppurinn kólnar aftur.

Láttu vita af þér

Ef þú ert að mæta í fyrsta sinn er um að gera að láta kennarann vita sem getur þá aðstoðað þig í fyrstu og leiðbeint.

Vökvaðu þig

Með því að reyna á þig í lengri tíma í heitum og rökum sal svitnarðu eðlilega mun meira en vanalega. Því er mikilvægt að gæta þess að drekka vel af vatni, fyrir tímann og eftir hann. Gott ráð er að drekka svolítið vel klukkutíma fyrir tímann og eftir en fara varlega í mikla vatnsdrykkju á meðan á tímanum stendur. Gott er að taka litla sopa og fylgja kennaranum með það þegar hann gefur fyrirmæli um slíkt.

Ekki fara of geyst

Hafðu í huga að dagsformið getur svo sannarlega verið misjafnt. Ef þú t.d. svafst ekki nóg, ert undir miklu álagi eða hefur ekki nærst vel þá getur þolið orðið minna og hitinn virst óbærilegur. Þá gætirðu fundið fyrir svima og ógleði. Ef þú upplifir slíkt skaltu slaka á. Sestu aftur á hælana, leggðu ennið í gólf, þessi staða er kölluð „barnið.“

Borðaðu létt

Hafðu í huga að velja létta fæðu daginn sem þú ferð í heitan tíma. Gott er að borða tveimur klukkustundum fyrir æfingu og einni klukkustundu eftir hana.