Minnsti jóla­sveinn landsins, Stúfur, nálgast stöðugt hinn þjóf­ótta Kerta­sníki í vin­sældum, sem sem heldur þó enn fyrsta sætinu á vin­sælda­lista jóla­sveinanna, sem MMR gaf út í dag.

Ekki vinsælt að sleikja matarílát

Þjóðin virðist ekki kippa sér mikið upp við þjóf­óttu jóla­sveinana, en ó­vin­sælastir eru þeir sem hafa tamið sér þann ósið að sleikja ó­hrein matar­í­lát. Þvöruskefill og Askasleikir verma tvö neðstu sætin og ó­snyrti­leg­heit virðast því falla verr í kramið hjá fólki heldur en þegar stolið er frá því.

l01181213 sveinki 01.jpg

Ef­laust sefur landinn fast í skamm­deginu, því að ekki virðist hann vakna við það þegar Hurða­skellir fer um með til­heyrandi há­vaða. Að minnsta kosti hefur það lítil á­hrif á vin­sældir hans, þó að yngsti og elsti aldurs­hópurinn hafi minni mætur á honum en fólk á miðjum aldri.

Kjöt­æturnar vin­sælli hjá körlu

Kvenna­gullið í hópnum er enginn annar en Kerta­sníkir, sem virðist valda af­brýðis­semi hjá körlum. Að minnsta kosti nýtur hann tvö­falt minni vin­sælda hjá körlum en konum.

Karlarnir eru svo tals­vert hrifnari af kjöt­þjófunum Bjúgna­kræki og Ket­króki, en kynin eru sam­mála um að Stúfur litli sé hið mesta gæða­blóð.

Að lokum veldur það fólki ekki miklum á­hyggjum þó að skeggjaðir karl­menn kíki inn um glugga hjá því, alla­vega situr Glugga­gægir á miðjum listanum.

Vin­sælda­listi jóla­sveinanna lítur annars svona út:

1) Kerta­sníkir
2) Stúfur
3) Hurða­skellir
4) Skyr­gámur
5) Ket­krókur
6) Glugga­gægir
7) Stekkja­staur
8) Bjúgna­krækir
9) Giljagaur
10) Gátta­þefur
11) Potta­skefill
12) Þvörus­leikir
13) Askas­leikir


Könnunin var fram­kvæmd af MMR dagana þrettánda til ní­tjánda desember og svöruðu rúm­lega eitt þúsund manns, á­tján ára og eldri.