Auður Ómars­dóttir opnar sýninguna Halda á­fram í Gallery Port klukkan 16 í dag. Sýningin saman­stendur af ó­hlut­bundnum mál­verkum sem minna á hatta.

„Þetta er bara strang­heiðar­leg mál­verka­sýning sem byrjaði með því að ég var að leita í ein­hverja svona frum­sköpun, öfugt við fyrri verk mín. Mig langaði ekki að vera með neinar fyrir­myndir þannig að ég byrjaði að teikna með báðum höndum í einu, svo­lítið eins og Rorschach sál­fræði­prófin,“ segir Auður.

Án þess að Auður ætlaði sér það varð af­raksturinn af þessu ferli mál­verk af fígúrum sem minntu á hatta.

„Ég hef alltaf verið mikil á­huga­manneskja um hatta, lang­amma mín var hatta­gerðar­kona og ég hef gert hatta­verk og skúlptúra áður. Þannig að út frá því myndaðist þema og það eru í rauninni bara ó­ræðar skugga­myndir eða út­línur sem verða stundum eins og sjálf­stæðar verur,“ segir hún.

Auður segist hafa lagt upp með það að hana langaði að gera ab­strakt­verk.

„Af því að ég er búin að vera að gera svo­lítið af realískum verkum og ég þarf alltaf að gera eitt­hvað öfugt við það sem ég gerði síðast. Ég þarf alltaf að vera í ein­hverri upp­reisn gegn sjálfri mér,“ segir hún.

Í sýningar­texta er hattinum lýst sem efsta lagi mann­búningsins og hann sagður vera út­gangs­punktur verka sýningarinnar.

„Svo var ég líka að hugsa um að í gamla daga þá voru allir með hatta og þú sást alltaf ein­hvern veginn á þeim hvað hver og einn starfaði við eða hvaða stétt hann til­heyrði. Í dag er enginn með hatta lengur en allir eru samt með ó­geðs­lega marga hatta, maður er að spá í heilsua, ástina, listina, maður er að reyna að vera upp­alandi og er alltaf með ein­hverja hundrað hatta á sér en samt aldrei eigin­legan hlut­lægan hatt,“ segir Auður.

Ætlarðu að vera með hatt á opnuninni?

„Já, það er verk­efni dagsins að finna nýjan hatt. Ég er oft með kú­reka­hattinn minn en mig langar svo­lítið í ein­hvern annan. Svo var ég líka að hvetja gesti í gríni til að koma með hatta á opnunina, það væri á­huga­verður gjörningur.“