Það er létt yfir Kristínu Einarsdóttur Mäntylä í Leipzig. Tónlistarháskólinn hennar hefur haldið dampi, þrátt fyrir COVID. „Ég er í bóklegum tímum á netinu en einkatímum í söng í skólanum,“ lýsir hún og kveðst búa í göngufæri frá skólanum, í sambúð með kærasta sem er söngvari, danskur og bandarískur. „Hann er uppalinn hér í Þýskalandi og var í söngnámi þegar ég kom. Hann hefur hjálpað mér með málið og fleira og við stutt hvort annað.“

Kristín útskrifaðist úr Söngskólanum í Reykjavík hjá Höllu Harðardóttur. „Nú hef ég tekið einsöngvara- og söngkennarapróf til BA-gráðu og ætla að útskrifast í sumar með MA-gráðu í óperusöng. Þegar ég kom hingað fannst mér óhugsandi að vera fjögur heil ár á sama stað en þetta er sjöunda árið mitt og ég að verða rótgróin! Man líka tilfinninguna þegar ég sá öll húsin sem merkt voru þekktum tónskáldum. Nú fæ ég stundum að syngja í stofunum þeirra. Það gefur tónlistinni aukna dýpt.“

Var á flakki með Björk

Spurð hvort hún hafi alltaf verið syngjandi svarar Kristín: „Já, líklega. Ég var líka alltaf í fótbolta þar til ég kom hingað út en söngurinn hefur verið rauður þráður gegnum lífið. Ég ólst upp í Svíþjóð og söng sænsk lög út í eitt eftir að ég flutti heim. Einu sinni vorum við í strætó á Menningarnótt þegar þrjár stelpur komu, syngjandi sænsk lög, mamma spurði hvar þær æfðu sig og þær sögðust vera í kór hjá Jóni Stefánssyni í Langholtskirkju. Eftir það fór ég þangað og það var mikil gæfa að fá að vera í því umhverfi. Eitt það allra besta sem hefur komið fyrir mig, því fyrir utan lærdóminn eignaðist ég mína bestu vini í kórstarfinu. Ég fór með Graduale Nobili á flakk um allan heim með Björk í hátt í þrjú ár, með hléum. Við erum búnar að syngja mikið saman síðan, taka þátt í keppnum og ýmsu.“

Þjóðverjar gáttaðir

Kristín segir mikið tónlistarlíf í Leipzig og nálægum borgum og kveðst heppin að hafa víða fengið að syngja. „Við erum sjö Íslendingar í þessum háskóla. Þjóðverjar eru alveg gáttaðir á hvað Íslendingar eiga marga góða söngvara, það er sama hvar maður kemur, alls staðar hafa Íslendingar verið og hafa gott orð á sér. Þjóðverjar hafa á tilfinningunni að hálf íslenska þjóðin sé syngjandi!“