Sviðslistahópurinn Spindrift sýnir kammeróperuna Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett, byggða á samnefndri ljóðabók eftir Elísabetu Jökulsdóttur í Mengi næsta sunnudag sem hluta af Myrkum músíkdögum. Höfundur óperunnar er tónskáldið Anna Halldórsdóttir og flytjendur eru Tinna Þorvalds Önnudóttir mezzosópran og Júlía Mogensen sellóleikari.
Tinna segir hugmyndina hafa kviknað árið 2015 þegar hún keypti ljóðabókina Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett af Elísabetu.
„Mig langaði svo að fá hana áritaða af því þetta var gjöf til vinkonu minnar og það var ekkert sjálfsagðara fyrir Elísabetu. Ég þekkti hana svo sem ekki neitt en hún bauð mér inn í te og þetta var bara mjög kósí. Svo kom upp úr dúrnum að ég væri söngkona og hún bað mig um að opna bókina á einhverjum stað og spinna laglínu við eitthvert ljóðið, sem ég og gerði. Hún varð öll spennt og sagði: „Þetta er bara líbrettó fyrir óperu, augljóslega.“ Ég held að henni hafi ekki verið mikil alvara, mér var alla vega ekki mikil alvara fyrr en nokkrum árum seinna þegar ég tók bókina úr bókaskápnum og varð aftur hugsað til þessa augnabliks,“ segir Tinna.

Alþjóðlegur sviðslistahópur
Nokkrum árum síðar kynntist Tinna Önnu Halldórsdóttur tónskáldi þegar þær voru að vinna saman að sýningu með leikhópnum Reykjavík Ensemble árið 2019.
„Við vinnum aðeins saman þar og ég bara finn að við eigum eftir að vinna saman meira, það var einhver tenging. Hugmyndin var enn þá lifandi í hausnum á mér en hennar tími hafði ekki komið. Ég kynnti þessa hugmynd fyrir Önnu og hún var bara geðveikt til í þetta. Ég kynnti hana líka fyrir sviðslistahópnum mínum Spindrift og þær voru bara rosa til í að taka þátt í þessu,“ segir hún.
Spindrift er íslenskur sviðslistahópur skipaður konum sem starfar á alþjóðlegum vettvangi, mestmegnis í Íslandi, Finnlandi og Noregi. Leikstjóri óperunnar, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, er einnig meðlimur í Spindrift.

Fengu grænt ljós frá Elísabetu
Spurð um hvað einkenni kammeróperu segir Tinna vera um að ræða venjulega óperu nema smærri í sniðum.
„Við tókum ljóðabókina, sem er saga frá upphafi til enda, og við völdum ljóð úr henni af því við gátum ekki notað þau öll. Sýningin er að hluta til sungin og að hluta til leikin. Við erum tvær á sviðinu, ég og Júlía Mogensen sellóleikari, sem við vorum mjög lánsamar að fá til liðs við okkur,“ segir hún.
Hafið þið verið í samtali við Elísabetu í gegnum ferlið?
„Hún er búin að fylgjast með öllum skrefum ferðarinnar, því að sjálfsögðu byrjuðum við ekkert nema að fá grænt ljós frá henni. En hún var ekki með í því að semja verkið. Hún bara gaf okkur frelsi til að leika okkur með ljóðin. Hún mun sjá rennsli hjá okkur og ég hlakka mjög til. Maður er líka smá nervus, ég vona að hún fíli þetta.“
Óperan finnst mér ótrúlega skemmtilegt form fyrir þetta því sagan er náttúrlega rosalega epísk en líka hversdagsleg á sama tíma eins og Elísabetu er lagið.
Óperan skemmtilegt form
Spurð um hvernig ferlið hafi verið að aðlaga ljóðabók Elísabetar óperuforminu segir Tinna að tónlistin hafi fæðst nokkuð náttúrulega.
„Við Anna byrjuðum á því að hittast og lesa í gegnum ljóðin til að finna dramatúrgíuna og línuna sem við vildum taka. Mér fannst alveg þegar ég las ljóðin eins og þau væru sum bara augljóslega mónólógar og ættu heima á sviði.“
Tinna segir ferlið jafnframt hafa verið organískt þó svo að það hafi einnig verið erfitt á köflum.
„Við höfum aldrei gert neitt þessu líkt áður, Anna hefur samið fullt af músík en aldrei samið óperu áður. Ljóðin eru náttúrlega ekki háttbundin eða slíkt þannig að það var oft áskorun fyrir Önnu að búa til melódíur og músík við suma textana. En það er samt bara áskorun af góðu tagi. Óperan finnst mér ótrúlega skemmtilegt form fyrir þetta því sagan er náttúrlega rosalega epísk en líka hversdagsleg á sama tíma eins og Elísabetu er lagið. Þetta er allt einhvern veginn rosa fallegt og ljótt á sama tíma,“ segir hún.
Ástin ein taugahrúga – Enginn dans við Ufsaklett er sýnd í Mengi á Myrkum músíkdögum sunnudaginn 29. janúar klukkan 8 og aukasýningar verða haldnar 10. og 17. febrúar.