David Armstrong-Jones, jarl af Snowdon og eigin­konan hans Serena, greif­ynjan af Snowdon, hafa til­kynnt um skilnað sinn að borði og sæng. Er um að ræða enn einn skilnaðinn í bresku konungs­fjöl­skyldunni, að því er fram kemur á vef BBC.

David er sonur Margrétar prinsessu, systur Elísa­betar og ljós­myndarans Antony Amr­stron-Jones. Hann og Serena höfðu verið gift í 26 ár og eiga saman tvö börn. Til­kynningin um skilnaðinn kemur innan við viku eftir að Peter Phillips, dóttur­sonur Elísa­betar og eigin­kona hans Autumn til­kynntu um sinn eigin skilnað.

Hjónin gáfu út til­kynningu til fjöl­miðla vegna skilnaðarins í dag. Þar kom fram að sam­bandið væri á enda. Fjöl­miðlar voru auk þess beðnir um að virða einka­líf hjónanna sem og annarra fjöl­skyldu­með­lima.

Í bresku götu­pressunni er gert að því skóna að síðustu mánuðir hafi reynst Elísa­betu Bret­lands­drottningunni og konungs­fjöl­skyldunni allri nokkuð erfiðir. Eru þar til­tekin skilnaðar­málin tvö, á­kvörðun Harry og Meg­han um að segja skilið við konungs­fjöl­skylduna og hneykslis­málin í kringum Andrew Breta­prins.