Tónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju hefst á á morgun, sunnudaginn 19. júní, með tónleikum kl. 16.00.

Hátíðin er nú haldin í tíunda sinn og stendur yfir til 24. júlí. Á tónleikunum á sunnudag koma fram þau Sigríður Aðalsteinsdóttir söngkona, Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari, Guðbjartur Hákonarson fiðluleikari og Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari.

Yfirskrift tónleikanna er „Í sjöunda himni“ en flutt verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá af íslenskum dægurlögum í útsetningum Þórðar Magnússonar, íslenskum sönglögum eftir Atla Heimi, Inga T, Sigfús Einarsson og fleiri ásamt þekktum erlendum perlum tónbókmenntanna.